Erlent

Obama heimsækir Aurora

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
mynd/AP
Búið er að aftengja sprengugildrur á heimili mannsins sem myrti 12 á forsýningu nýjustu Batman-kvikmyndarinnar í Bandaríkjunum á fimmtudag. Obama Bandaríkjaforseti mun ferðast til Colorado í dag til að votta aðstandendum fórnarlambanna samúð sína.

Flestir þeirra sem létust í skotárás á miðnætursýningu nýjustu kvikmyndarinnar um Leðurblökumanninn í bænum Aurora í Coloradoríki á fimmtudaginn voru ungt fólk. Lögregluyfirvöld í bænum hafa nú birt nöfn fórnarlambanna.

Allt létust tólf í árásinni en um sextíu særðust, margir lífshættulega. Af þeim sem létust voru allir nema tveir innan við þrítugt. Yngsta fórnarlambið var sex ára gömul stúlka.

Vígamaðurinn, James Holmes, er sjálfur tuttugu og fjögurra ára gamall. Hann var handtekinn fyrir utan kvikmyndahúsið og er nú vistaður í einangrun. Ekki er vitað hvað Holmes gekk til með árásinni en sakavottorð hans var hreint fram að árásinni. Holmes verður leiddur fyrir dómara á morgun.

Sprengjusérfræðingar hafa nú aftengt sprengjugildrur sem Holmes kom fyrir á heimili sínu. Um var að ræða háþróaðar og afar öflugar sprengjur en þeim var ætlað að granda hverjum þeim sem kom að húsinu í kjölfar árásarinnar.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, heimsækir Aurora í dag. Þar mun hann hitta aðstandendur og eftirlifendur skotárásarinnar. Þá mun hann einnig funda með yfirvöldum á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×