Erlent

Berlusconi íhugar þriðju upprisuna frá pólitískum dauða

Silvio Berlusconi fyrrum forsætisráðherra Ítalíu vinnur nú leynt og ljóst að þriðju upprisu sinni frá pólitískum dauðdaga á ferli sínum.

Margir Ítalir hugsa til þess með hryllingi ef að hinum 75 ára gamla Berlusconi takist að komast í valdastöðu að nýju á Ítalíu. Tímaritið The Economist er þeim sammála og segir að Berlusconi sé alls ekki það sem Ítalía þurfi á að halda í dag.

Berlusconi er með nokkur dómsmál hangandi yfir höfðinu og spanna þau allt frá spillingu í starfi og upp í að hafa keypt sér þjónustu vændiskonu sem reyndist vera undir lögaldri.

Ástæðan fyrir því að Berlusconi er að boða endurkomu sína þessa dagana er afleitt gengi flokks hans, Frelsisflokksins í skoðanakönnunum að undanförnu. Samhliða því að margir kjósendur flokksins virðast vilja fá þennan gamla lýðskrumara í forystu að nýju.

Berlusconi hrökklaðist frá embætti forsætisráðherra með skömm í fyrra og skildi ítalska efnahagskerfið eftir í miklum vandamálum. The Economist segir að umræða um endurkomu hans á næstu mánuðum muni þvælast fyrir lausnum á þeim vandamálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×