Erlent

Spáir því að Kínverjar vinni flest verðlaun á Ólympíuleikunum

Hagfræðiprófessor spáir því að í fyrsta sinn í sögunni muni Kínverjar vinna til fleiri verðlauna á Ólympíuleikum en Bandaríkjamenn.

Bandaríkjamenn hafa unnið til flestra verðlauna á sumarólympíuleikum áratugum saman og raunar nær alla síðustu öld. Helsta undantekningin var árið 1980 þegar Bandaríkjamenn ákváðu að sniðganga Ólympíuleikana í Moskvu.

Klaus Nielsen hagfræðiprófessor við Birkbeck háskálann í London spáir því að Kínverjar muni fella Bandaríkjamenn af stalli í London í ár hvað heildarfjölda verðlaunapeninga varðar. Hann byggir spá sína á útreikningum á úrslitum á íþróttamótum undanfarin fjögur ár.

Raunar var það svo að á ólympíuleikunum í Bejing 2008 unnu Kínverjar fleiri gullverðlaun en Bandaríkjamenn sem eftir sem áður unnu til flestra verðlauna þegar silfrið og bronsið er meðtalið.

Nielsen segir að Bandaríkjamenn hafi ekki lengur sömu breidd og Kínverjar þegar kemur að fremsta íþróttafólki heimsins. Bandaríkjamenn hafi að vísu enn yfirburðastöðu þegar kemur að frjálsum íþróttum og sundi en í fjölmörgum öðrum keppnisgreinum eru það Kínverjar sem raða sér í efstu sætin að mati prófessorsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×