Landsbankinn er ósáttur við að fyrirtæki sem nýlega fékk milljarða afskriftir hjá bankanum hafi fengið að kaupa Plastprent af Framtakssjóði Íslands. Fulltrúi bankans í stjórn sjóðsins greiddi atkvæði gegn samkomulaginu.
Framtakssjóður Íslands og Kvos ehf, móðurfélag prentsmiðjunnar Odda, skrifuðu undir samning um kaup Kvosar á Plastprenti fyrr í þesum mánuði.
Kvos átti áður hlut í Plastprenti áður en Landsbankinn leysti Plastprent til sín árið 2009.
Kristþór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ísafoldarprentsmiðju gagnrýnir þessa sölu í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Hann bendir á að Kvos hafi fengið fimm milljarða afskrift hjá Landsbankanum og Arion banka. Til að skila tilboði í Plastprent hafi fyrirtækið þurft að sýna fram á 250 milljóna króna fjárfestingargetu.
„Hvernig getur fyrirtæki sem er nýbúið að fá fimm milljarða afskrift sýnt fram á það? Ég spyr bara hvaðan koma þeir peningar, voru þeir til? Útaf hverju var þá ekki afskrifað minna?" segir Kristþór í samtali við fréttastofu.
Landsbankinn á rúmlega fjórðung í Framtakssjóði Íslands á móti 16 lífeyrissjóðum og einn fulltrúa í stjórn.
Samkvæmt heimildum fréttastofu voru landsbankamenn ósáttir við að Kvos fengi að kaupa Plastprent. Fulltrúi bankans í stjórn framtakssjóðsins greiddi því atkvæði gegn því að gengið yrði frá samkomulaginu við Kvos.
Var það mat bankans, samkvæmt heimildum, að ekki væri siðferðislega rétt samþykkja söluna með vísun í áðurnefndar afskriftir.
Samkomulagið Framtakssjóðs og Kvosar var undirritaða með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Samkvæmt upplýsingum frá samkeppniseftirlitnu er málið enn í skoðun.
