Erlent

Þögn Obama og Romney um skotvopnalög vekur athygli

Athygli vekur að hvorki Barack Obama Bandaríkjaforseti né Mitt Romney keppinautur hans um forsetaembættið hafa tjáð sig um skotvopnalög Bandaríkjanna í kjölfar árásarinnar í Denver í Colorado.

Michael Bloomberg borgarstjóri New York borgar hefur gagnrýnt þá báða harðlega fyrir að hafa ekki tjáð sig um skotvopnalögin. Talið er að 270 milljónir skammbyssa og annarra skotvopna séu til staðar á heimilum í Bandaríkjunum.

Bloomberg segir að skotvopnalögin séu augljóslega stórt vandamál í Bandaríkjunum eins og árásin í Denver sýni en þar féllu 12 manns og 50 særðust undir forsýningu á nýjustu Batman myndinni.

Það eru pólitískar ástæður að baki þess að hvorki Obama né Romney vilja tjá sig um lögin. Þær eru helstar að í ríkjum þar sem baráttan um forsetaembættið er hvað tvísýnust er meirihluti kjósenda á þeirri skoðun að stjórnvöld eigi ekki að hrófla við skotvopnalögum landsins. Þetta eru ríki á borð við Pennsylvaníu, Ohio, Michigan og Indiana. Því vilja hvorki Obama né Romney styggja þessa kjósendur með yfirlýsingum um að þeir vilji breyta skotvopnalögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×