Erlent

Vopnasala stóreykst í Denver eftir skotárásina á Batman myndinni

Vopnasala hefur stóraukist í borginni Denver í Colorado í kjölfar árásarinnar á forsýningu nýjustu Batman myndarinnar sem kostaði 12 mannslíf og tugi særða.

Það er nokkuð þekkt fyrirbrigði í Bandaríkjunum að voðaverk á borð við árásina á Batman myndinni auka verulega við vopnakaup í viðkomandi borg eða ríki næstu dagana og vikurnar á eftir.

Denver er engin undantekning á þessari reglu en fjallað er um málið í Denver Post. Þar segir að frá síðasta föstudegi hafi nær 3.000 manns sótt um leyfi til að bera skotvopn í borginni. Þetta eru um 50% fleiri en sóttu um slíkt leyfi á jafnmörgum dögum fyrir tveimur vikum síðan. Samsvarandi aukning hefur orðið á námskeiðum þar sem skotfimi er kennd.

Denver Post ræðir við Jake Mayers starfsmann vopnabúðarinnar Rocky Mountain Guns and Ammo. Meyers segir að það hafi verið brjálað að gera í búðinni frá því að skotárásin átti sér stað. Strax morguninn eftir stóðu nærri tuttugu manns í biðröð fyrir utan búðina og biðu eftir að hún opnaði. Hann segir einnig að síðasti mánudagur hafi verið sá annasamasti í búðinni á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×