Erlent

Forseti Argentínu afboðar komu sína á Ólympíuleikana

Pólitík blandast inn í Ólympíuleikana í London eins og oft hefur gerst áður. Cristina Kirchner forseti Argentínu hefur afboðað komu sína á opnunarhátíð leikanna á föstudaginn kemur.

Ástæðan fyrir því að Kirchner afboðar komu sína er sennilega hin mikla spenna sem ríkir í samskiptum Breta og Argentínumanna vegna deilna þeirra um Falklandseyjar. Sendiráð Argentínu í London vill hinsvegar ekki gefa upp opinberlega hvað liggur að baki afboðun forsetans.

Afboðunin er nokkuð áfall fyrir borgaryfirvöld í London sem hafa stært sig af því að fleiri þjóðhöfðingjar en nokkurn tíman í sögunni muni verða viðstaddir opnunarhátíðina. Hinsvegar andar Alþjóðlega ólympíunefndin léttar því Kirchner hefur hvatt argentínska íþróttamenn á leikunum til að nota þá ekki í pólitískum tilgangi.

Grunnt hefur verið á hinu góða milli Breta og Argentínumanna allt þetta ár vegna Falklandseyja. Þannig mun hafa komið til harðra orðaskipta oftar en einu sinni milli David Cameron forsætisráðherra Breta og Krichner vegna deilunnar á fundi G20 ríkjanna í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×