Enski boltinn

Redknapp ætlar að hjálpa til að bjarga Portsmouth

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp.
Harry Redknapp. Mynd/Nordic Photos/Getty
Harry Redknapp, fyrrum stjóri Tottenham og Portsmouth, ætlar að reyna að gera sitt í að bjarga Portsmouth frá því að vera lagt niður vegna gjaldþrots. Portsmouth verður að redda fjármagni fyrir 10. ágúst ef félagið ætlar að halda áfram rekstri.

Harry Redknapp ætlar sér að tala við Nwankwo Kanu, leikmann Portsmouth, og reyna að sannfæra hann um að gefa eftir í kröfum sínum. Nwankwo Kanu segir Portsmouth skulda sér 3 milljónir punda í ógreidd laun.

„Ég ætla að hringja í Kanu í dag og athuga hvort ég geti gert eitthvað. Ég fékk hann til Portsmouth á eins árs samningi á sínum tíma og Tony Adams sagði að ég hlyti að vera eitthvað klikkaður því hann væri búinn að vera. Hann er ennþá hjá félaginu sex árum síðar," sagði Harry Redknapp við ESPN. Tal Ben Haim er annar leikmaður sem er að heimta svipaða upphæð og Kanu.

„Það er auðvelt að setja sig í spor leikmanna sem eru á samningi og telja sig hlunnfarna um laun. Þeir verða samt að átta sig á því að ef félagið verður lagt niður þá munu þeir ekki fá eina krónu," sagði Redknapp.

Redknapp eyddi fimm árum hjá Portsmouth frá 2002 til 2008 og gerði félagið að enskum bikarmeisturum 2008. „Það verður að bjarga Portsmouth því þetta er frábært félag með mikla hefð. Félagið á líka frábæra stuðningsmenn. Þegar þú býrð í Portsmouth þá ertu stuðningsmaður Portsmouth. Þú sérð engan þar í treyjum Manchester United eða Arsenal," sagði Redknapp.

„Ég trúi ekki öðru en það sé fólk þarna úti sem er tilbúið að stíga inn, fá félagið ódýrt og bjarga því frá gjaldaþroti. Það þarf ekki mikið til að koma þessu félagi aftur á rétta braut," sagði Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×