Erlent

Japanir banna sashimi úr nautalifur

BBI skrifar
Á myndinni er hvala-sashimi, sem hefur ekki verið bannað.
Á myndinni er hvala-sashimi, sem hefur ekki verið bannað. Mynd/AFP
Japanir hafa tekið upp á því að banna sölu sashimi úr nautalifur sem áður var einn þjóðarrétta þeirra.

Þessi sérstæði réttur var upphaflega aðeins gerður úr lifur frá japönskum nautgripum en í síðari tíð hafði notkun erlendra nautgripa aukist. Ótrygg gæði vörunnar hafa nú einfaldlega leitt til þess að japönsk yfirvöld hafa bannað sölu á hrárri lifur í þessum tilgangi.

Salan er óheimil frá því í byrjun júlí, en rétturinn er gerður úr þunnum og hráum sneiðum af nautgripalifur. Á vef Landssambands kúabænda segir að þetta hafi verið einn meginréttur svonefndra yakiniku veitingastaða.

Sashimi er japanskur réttur sem yfirleitt er gerður úr hráum fiski. Þó þekkjast annars konar tegundir, t.d. sashimi úr nautalifur og kjúkling. Sashimi er oft fyrsti réttur í japönsku eldhúsi. Vesturlandabúar rugla gjarna saman orðunum sashimi og sushi og líta á réttina sem eitt og sama fyrirbærið. Í raun er um sinn hvorn réttinn að ræða. Orðið sushi á við rétti sem gerðir eru með edik-legnum hrísgrjónum. Sashimi er hins vegar þunnt skornar sneiðar úr hráum fiski eða kjöti án hrísgrjóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×