Enski boltinn

Koscielny vildi frekar vera áfram hjá Arsenal en að fara til Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Laurent Koscielny er ánægður hjá Arsenal.
Laurent Koscielny er ánægður hjá Arsenal. Mydn/AFP
Það er draumur flestra knattspyrnumanna að fá að spila með Barcelona en franski miðvörðurinn Laurent Koscielny vildi frekar vera áfram hjá Arsenal en að fara suður til Spánar. Koscielny talaði um þetta í viðtalið við franska blaðið L'Equipe.

Laurent Koscielny gekk frá nýjum fimm ára samningi við Arsenal-liðið á dögunum en hann átti mjög gott tímabil með Arsenal síðasta vetur. Nýr samningur hans rennur út sumarið 2017 en hann hefur verið hjá Arsenal frá 2010.

„Ég er svo ánægður með að hafa skrifað undir samning til 2017. Þetta skiptir mig miklu máli ekki síst sem þetta sýnir og sannar að félagið hefur trú á mér. Ég verð næstum því orðin gamall maður 2017," sagði hinn 26 ára gamli Laurent Koscielny við L'Equipe.

Barcelona hafði áhuga á því að fá til sín Koscielny og hann segist hafa vitað af því. „Já auðvitað vissi ég af því og það er mikið hrós fyrir mig sem knattspyrnumann. Ég hef bara allt hjá Arsenal, frábært æfingasvæði, yndislegan leikvang og einstakan hóp. Ég vil vaxa og dafna hér eins og Thierry Henry, Patrick Vieira og fleiri gerðu á sínum tíma," sagði Laurent Koscielny.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×