Enski boltinn

Hugo Rodallega til liðs við Fulham

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Kólumbíski sóknarmaðurinn Hugo Rodallega hefur skrifað undir þriggja ára samning við enska úrvalsdeildarliðið Fulham. Rodallega kemur á frjálsri sölu en hann var síðast í herbúðum Wigan.

„Ég er í skýjunum að hafa samið við Fulham. Ég vildi vera áfram í Englandi og himinlifandi yfir þessu tækifæri. Mig langar að þakka starfsfólkinu og stuðningsmönnum Wigan fyrir frábært þrjú og hálft ár," sagði Rodallega í viðtali á heimasíðu Fulham.

Kólumbíumaðurinn skoraði 24 mörk í 112 leikjum fyrir Wigan. Þó skyggði lágt markahlutfall hans á síðustu leiktíð á frammistöðu hans þar á undan en hann skoraði aðeins tvö mörk í 23 leikjum á síðasta tímabili.

„Honum hefur verið sýndur mikill áhugi af öðrum liðum í úrvalsdeildinni og erlendis. Það er mikill fengur fyrir okkur að bæta honum í hópinn í aðdraganda leiktíðarinnar," er haft eftir Martin Jol, knattspyrnustjóra Fulham, á heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×