Erlent

Hótað lífláti fyrir neikvæða gagnrýni

The Dark Knight Rises verður frumsýnd hér á landi 25. júlí næstkomandi.
The Dark Knight Rises verður frumsýnd hér á landi 25. júlí næstkomandi. mynd/AP
Stjórnendur kvikmyndavefsíðunnar Rotten Tomatoes hafa lokað fyrir athugasemdir notenda á nýjustu Batman kvikmyndina. Þetta var ákveðið eftir að gagnrýnanda var hótað lífláti vegna neikvæðrar umfjöllunar um The Dark Knight Rises.

Gríðarleg eftirvænting er fyrir myndinni en hún er þriðja og síðasta kvikmynd leikstjórans Christopher Nolan um Batman. The Dark Knight, sem kom út árið 2008, er ein vinsælasta kvikmynd allra tíma og er af mörgum besta ofurhetjukvikmynd fyrr og síðar.

Það ríkir því mikil spenna meðal aðdáenda. Gagnrýnandinn Marshall Fine kynntist því af eigin raun.

Fine var ekki hrifinn af The Dark Knight Rises, hasarinn var of mikill að hans mati og líkti hann myndinni við Transformers kvikmyndirnar. Stuttu eftir að gagnrýnin birtist á Rotten Tomatoes hafði fjöldi hótana í hans garð birst í athugasemdakerfi síðunnar.

Það sem fór hvað mest í taugarnar á aðdáendunum var að Fine dró línu milli The Dark Knight Rises og Transformers. Einn notandi sagði að Fine ætti að brenna til dauða fyrir skrifa slíkan ófögnuð.

Matt Atchity, ritstjóri Rotten Tomatoes, hefur nú látið loka fyrir athugasemdir á The Dark Knight Rises.

Það er síðan vert að benda á að kvikmyndinn hefur annars fengið afar góða dóma frá nær öllum kvikmyndagagnrýnendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×