Erlent

Versti dagur byltingarinnar til þessa

Frá mótmælafundi í Damaskus í dag.
Frá mótmælafundi í Damaskus í dag. mynd/AFP
Stjórnarandstæðingar í Sýrlandi hafa hertekið allar helstu eftirlitsstöðvar landsins við landamæri Írak. Á meðan harðna bardagar í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, þar sem stjórnarhermenn og uppreisnarmenn takast á í kjölfar sjálfsmorðsárásar sem kostaði þrjá háttsetta meðlimi sýrlensku ríkisstjórnarinnar lífið.

Dagurinn í dag hefur verið einn sá allra versti frá því að stjórnarbyltingin hófst í landinu fyrir 16 mánuðum. Talið er að um 250 manns, þarf af fjöldi óbreyttra borgara, hafi fallið í átökum í landinu í dag. Þá hafa borist fregnir af því að vígbúnar Shabiha-sveitir hafi gengið um þorpin Mezze og Kafr Sousseh, vestan við Damaskus, og myrt alla sem urðu á vegi þeirra.

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, flutti stutt ávarp á einum af ríkisfjölmiðlum landsins í kvöld. Þar blés hann á orðróm um að hann hafi særst og jafnvel fallið í sjálfsmorðsárásinni á miðvikudag.

Frá fundi Öryggisráðsins í dag.mynd/AP
Þá tókst Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna ekki að samþykkja ályktun um hertar efnahagsþvinganir gegn Sýrlandi í dag. Rússland og Kína beittu neitunarvaldi sínu í ráðinu og uppskáru um leið gagnrýni nær allra aðildaríkja Öryggisráðsins.

William Hague, utanríkisráðherra Sýrlands, sagði í kjölfar atkvæðagreiðslunnar að löndin tvö hefðu endanlega snúið baki við sýrlensku þjóðinni og gert það þegar þörfin fyrir aðstoð alþjóðasamfélagsins hafi verið hvað mest.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, tók í sama streng. Talsmaður hans sagði í dag að augljóst væri að völd al-Assads færu minnkandi og að dagar hans væru taldir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×