Innlent

Þörf á strangari kröfum til fjölda meðmælenda

Karen Kjartansdóttir skrifar
Prófessor við lagadeild Háskóla Íslands telur rétt að auka þann fjölda meðmælenda sem forsetaframbjóðendur þurfa að afla til að framboð telst löglegt. Niðurstöður kosninganna þar sem þrír frambjóðendur fengu samtals um fimm prósent atkvæða bendi til þessa að þröskuldurinn sé of lágur í dag.

Fylgi forsetaframbjóðandanna var æði misjafn. Lokatölur sýna að þeir þrír frambjóðendur sem minnst höfðu fylgið voru:Herdís Þorgeirsdóttir með 2,6 prósenta fylgi, Andrea Ólafsdóttir 1,8 prósenta fylgi og Hannes Bjarnason með tæpt 1 prósent.

Í stjórnarskrá Íslands frá 17. júní 1944 segir: „Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna." Síðan þá hafa liðið 68 ár og fjöldi kjósenda ríflega þrefaldast er fjöldi meðmælanda sé enn hinn sami.

Björg Thorarensen lagaprófessor við Háskóla Íslands telur að þetta hafi orðið til þess að þröskuldur til framboðs til forseta Íslands hafi lækkað. Bendir hún á að árið 1944 voru kosningarbærir menn um 74 þúsund því þurftu frambjóðendur að skila inn meðmælum frá um 2 tveimur prósentum kjósenda. Árið 2012 eru kosningabærir menn um 235 þúsund og því þurfa kjósendur að skila meðmælum um 0,6 prósent kjósenda.

"Ég teldi vera skynsamlegt að auka fjölda meðmælenda miðað við ákveðinn hærri þröskuld til að gera það ekki jafn einfalt að bjóða sig fram. Við sjáum samt dæmi úr þessari baráttu að ekki tókst nú öllum þeim sem rætt var í byrjun að afla nægilegs fylgis," segir Björg.

Hún telur að rétt væri að miða við að menn öfluðu stuðnings tveggja til þriggja prósent kjósenda til að geta boðið sig fram. Um þá staðreynd að nú voru þrír frambjóðendur sem náðu ekki þriggja prósenta fylgi segir Björg:

„Það sýnir að hefði verið gerð krafa um fleiri meðmælendur er ólíklegt að þeir frambjóðendur hefðu getað safnað nægilegum meðmælandafjölda. Kosningabaráttan hefði þá orðið allt öðruvísi, þá hefðu orðið færri frambjóðendur og mögulega hver með meira fylgi á bak við sig og hefði kannski verið markvissari. En þetta sýnir að þröskuldurinn til að bjóða sig fram hér á Íslandi er mjög lágur og ekki líklegur til að endurspegla endilega mikið landfylgi á bak við frambjóðendur til forsetakjörs."Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.