Innlent

Mannréttindadómstóllinn fjallar um mál gegn Íslandi

BBI skrifar
Blaðamennirnir Björk og Erla.
Blaðamennirnir Björk og Erla. Mynd/Ellý
Mannréttindadómstóll Evrópu mun fjalla um mál blaðamannanna Bjarkar Eiðsdóttur og Erlu Hlynsdóttur gegn Íslandi á þriðjudaginn næsta.

Blaðamennirnir höfðu skrifað sinn hvora greinina um nektardansstaði. Önnur fjallaði um Goldfinger og hin um Strawberries. Í báðum greinunum var haft eftir viðmælendum blaðamannanna í beinni ræðu að refsiverð háttsemi ætti sér stað innan veggja staðanna. Ummæli þessi fengust ekki sannreynd og vegna þess að blaðamennirnir höfðu sett nafn sitt við greinina dæmdu íslenskir dómstólar þá til að þola ómerkingu ummælanna og greiða skaðabætur vegna þeirra.

Gunnar Ingi Jóhannsson hjá Lögmönnum Höfðabakka sendi inn kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málanna. Hann taldi niðurstöðu íslenskra dómstóla stangast á við ákvæði mannréttindasáttmálans um tjáningarfrelsi. „Til eru fordæmi þar sem Mannréttindadómstóllinn lítur svo á að ekki megi gera blaðamann ábyrgan fyrir beinum ummælum viðmælanda nema mjög sérstakar og ríkar ástæður réttlæti slíkt," segir Gunnar og telur að ekki hafi verið rökstutt af hálfu íslenskra dómstóla að svo hafi háttað í þessum tilvikum.

Aðeins eitt mál sem varðar tjáningarfrelsið hefur fallið í Mannréttindadómstólnum gegn Íslandi. Það er mál Þorgeirs Þorgeirsonar árið 1992 sem hafði verið dæmdur fyrir að skrifa um lögregluofbeldi. Mannréttindadómstóllinn taldi að hann hefði verið að skrifa um mikilvæg þjóðfélagsleg atriði sem áttu erindi við almenning og því mætti ekki hefta tjáningu hans að því leyti nema brýn ástæða væri til. Í málum blaðamannanna Erlu og Bjarkar nú er byggt á svipuðum sjónarmiðum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×