Enski boltinn

Rodgers: Peningarnir skiptu Gylfa máli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Brendan Rodgers segir að Gylfi Þór Sigurðsson hafi misst af tækifæri til að spila með stóru félagi undir stjóra sem hann þekkir vel þegar hann ákvað að ganga til liðs við Tottenham í gær.

Gylfi gerði í gær fimm ára samning við Tottenham en honum bauðst einnig til að fara til Liverpool.

Rodgers fékk Gylfa til að koma til Swansea sem lánsmaður um áramótin og stóð hann sig vel. Rodgers var svo ráðinn til Liverpool og var Gylfi um leið orðaður við félagið.

„Ég veit hvernig markaðurinn er og ég var ekki reiðubúinn að borga meira en það sem ég hafði áður samþykkt að borga," er haft eftir Rodgers í enskum fjölmiðlum.

„Ég taldi að honum þætti mikilvægast að fá að spila fótbolta en greinilega skipti fjárhagslega hliðin máli. Gylfi fékk tækifæri til að spila undir stjórn knattspyrnustjóra sem hann þekkir og hjá sögufrægu félagi."

„Hann ákvað að fara til Tottenham af einhverjum ástæðum. Ég erfi það ekki. Við erum með aðra leikmenn í sigtinu og snúum okkur að öðru."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×