Enski boltinn

Park samþykkir að fara til QPR | Fer í læknisskoðun á mánudaginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Suður-Kóreumaðurinn Ji-Sung Park mun hafa samþykkt að ganga til liðs við QPR og að gera þriggja ára samning við liðið. Þetta er fullyrt á fréttavef Sky Sports.

Goal.com segir að hann eigi þó eftir að gangast undir læknisskoðun og að það verði gert á mánudaginn. Sky Sports segir að kaupverðið sé um tvær milljónir punda en Goal.com segir að það sé 2,5 milljónir.

Samkvæmt Goal.com mun United hins vegar fá 2,5 milljónir til viðbótar ef QPR tekst að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni næsta vor.

Park lenti í meiðslavandræðum á síðasta tímabili og þarf því Park að standast ítarlega læknisskoðun áður en gengið verður frá félagaskiptunum. Hann var hjá United í alls sjö ár og spilaði meira en 200 leiki með liðinu.

Fullyrt er að Park þiggi um 70 þúsund pund í vikulaun hjá United og að hann verði launahæsti leikmaður QPR. Tony Fernandes, eigandi félagsins, ætli sér einnig að auka markaðssetningu félagsins í Asíu með þessum kaupum.

Fernandes fékk nokkra sterka leikmenn til félagsins á síðustu leiktíð og ljóst að hann ætlar sér stóra hluti með félagið í framtíðinni. Boðað hefur verið til blaðamannafundar á mánudaginn og er búist við því að þá verði tilkynnt áform um byggingu nýs leikvangs fyrir félagið.

Fernandes skrifaði á Twitter-síðu sína að áform um nýjan leikvang líti vel út og að hann verði staðsettur í vesturhluta Lundúna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×