Enski boltinn

Rodgers: Launakröfur Gylfa voru ekki vandamálið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, reiknar með því að ganga frá samningi við nýjan leikmann í vikunni.

„Við vonumst til þess að geta gengið frá samningi í þessari viku sem er mjög spennandi kostur fyrir félagið," sagði Rodgers í viðtali við BBC.

„Hann verður stórkostlegur, ég er viss um það. Stuðningsmennirnir munu gjörsamlega elska hann," sagði Rodgers sem er meðal annars mikill aðdáandi Fabio Borini framherja Roma.

Talið er að Liverpool hafi gert í það minnsta fjórar tilraunir til þess að fá til sín leikmenn það sem af er sumri. Einn þeirra, Gylfi Þór Sigurðsson, kaus Tottenham fram yfir Liverpool.

„Við misstum ekki af honum vegna þess að við vildum ekki greiða honum há laun," sagði Rodgers.

„Við misstum af honum þar sem stjórinn (Rodgers sjálfur) var ekki tilbúinn að ganga frá kaupunum. Það verða fleiri skotmörk fyrir okkur og aðrir leikmenn sem við munum reyna að fá til félagins," sagði Rodgers og lagði áherslu á að félagið væri tilbúið að greiða þau laun sem þyrfti til að fá réttu leikmennina til félagsins.

Rodgers leggur þó áherslu á að hann hafi ekki ótakmarkað magn fjár til að verja í leikmannakaup.

„Við höfum ekki hjólbörur fullar af peningum, ekki eins og fólk telur að sé. Við munum ekki kaupa jafnmarga leikmenn og fjallað hefur verið um í fréttum," sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×