Innlent

Meirihluti fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB-aðildar

Karen Kjartansdóttir skrifar
Nýr meirihluti myndaðist í morgun í utanríkismálanefnd fyrir því að vísa umsókn um aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir áramót. Málið mun hafa komið viðkvæmri sátt í fleiri málum milli stjórnarflokkanna í algjört uppnám.

Á fundi utanríkismálanefndar í morgun bókaði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður vinstri grænna:

"Hið brýna úrlausnarefni sem við blasir er ekki áframhaldandi aðlögun Íslands að ESB heldur upplýst þjóðfélagsumræða í aðdraganda almennrar atkvæðagreiðslu þar sem þjóðin fær að svara þeirri spurningu hvort hún vilji ganga inn í ESB. Efna þarf til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu hið fyrsta - fyrir lok þessa árs - og hvet ég til þverpólitískrar samstöðu um að svo geti orðið."

Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks bókuðu síðan stuðning við þessa tillögu Guðfríðar Lilju. En bæði formaður þingflokks sjálfstæðismanna og formaður Framsóknarflokksins íhuga að leggja fram þingsályktunartillögu um málið. Þá mun þingið þurfa að greiða atkvæði um bókun Guðfríðar.

"Það er eflaust einsdæmi að meirihluti utanríkismálanefndar í ríki, sem er í aðildarumsóknarferli að Evrópusambandinu, álykti með þessum hætti. Nú er þetta ekki ályktun nýs meirihluta en með þessari bókun, Guðfríðar Lilju, er ljóst að það er komin nýr meirihluti í nefndinni sem er samþykkur eða sammála um að setja þetta mál í dóm þjóðarinnar áður en lengra er haldið," segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

"Það er auðvitað mjög sérstakt að meirihluti utanríkismálanefndar þings sem er að sækja um aðild að Evrópusambandinu sé ekki hlynnt umsókninni það hlýtur að hafa einhver áhrif á það hvernig Evrópusambandið lítur á þetta," segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

Fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í utanríkismálanefnd hafa lagt til að utanríkisráðherra komi á fund nefndarinnar til að fara yfir málið og Alþingi taki það í framhaldinu til umfjöllunar.

Heimildir fréttastofu herma að þingmenn innan Samfylkingarinnar séu æfir vegna bókunar Guðfríðar Lilju. Þetta sé líklegt til að að hafa áhrif á fleiri mál á þingi sem viðkvæm sátt hefur verið um milli stjórnarflokkanna svo sem rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×