Innlent

Fá ekki útskrift af símtali Davíðs og Geirs

Mynd/Anton Brink
Seðlabanki Íslands hefur hafnað beiðni þess efnis að útskrift af símtali Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra og Davíðs Oddssonar þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, verði afhent fjárlaganefnd og efnhags- og viðskiptanefnd Alþingis. Formenn nefndanna, þau Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður fjárlaganefndar og Helgi Hjörvar formaður efnahags- og viðskiptanefndar óskuðu eftir því að Seðlabankinn léti þeim í té útskriftina.

Í símtalinu ræddu þeir Geir og Davíð um fyrirhugað lán að fjárhæð 500 milljónum evra, eða um 80 milljarða króna sem Seðlabankinn lánaði síðar Kaupþingi í miðju hruni eða þann 6. október 2008, sama dag og neyðarlögin voru sett. Lánað var gegn veði í danska FIH-bankanum. Engin formleg samþykkt bankastjórnar Seðlabankans lá fyrir um lánið.

Í svari Seðlabankans, sem undirritað er af Arnóri Sighvatssyni aðstoðarseðlabankastjóra og Ragnari Árna Sigurðarsonar staðgengli aðallögfræðings, segir að þagnarskylda ríki um upplýsingarnar sem beðið sé um og því sé beiðni þingmannanna hafnað. Undan þeirri þagnarskyldu verði ekki vikið nema samkvæmt skýru lagaboði eða ef dómari úrskurðar að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu.

Þá vísa seðlabankamenn í þingskaparlög þar sem segir að þingnefnd geti beðið um afhendingu gagna í tilefni af máli sem nefndin hefur til umfjöllunar og að fjórðungur nefndarmanna verði að krefjast gagnanna. „Í bréfi yðar kemur hvergi fram hvaða mál séu til umfjöllunar, hvorki hjá fjárlaganefnd né heldur hjá efnahags- og viðskiptanefnd, sem kalli á þá gagnaöflun sem um ræðir. Einungis er vísað til þess að gögnin varði mál sem falli „undir málasvið nefndanna". Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að líta svo á að 1.mgr 50.gr. laga um þingsköp Alþingis séu uppfyllt, né heldur í öðrum lögum, til til þess að vikið verði frá þagnaskyldu."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×