Innlent

Hafa áhyggjur af fuglaveiðimönnum með ólögleg skotvopn

Athugið að myndin er úr safni.
Athugið að myndin er úr safni.
Félagar í Náttúruverndarsamtökum Austurlands (NAUST) hafa áhyggjur af því að fuglaveiðimenn sé á ferð með öflugri vopn en löglegt er. Þeir vilja að stjórnvöld herði eftirlit með slíkum vopnum. Þá hafa þeir áhyggjur af aukinni ásókn í eggjatínslu sem geti skaðað fuglastofna. Það er Austurglugginn sem greindir frá ályktunum frá aðalfundi samtakanna fyrir skemmstu.

Þar var skorað á stjórnvöld að takmarka strax innflutning á vopnum sem ekki uppfylla lög um veiðar og eftirlit með vopnum sem breytt hefur verið.

Í ályktuninni segir að það sé því miður ljóst að nokkuð sé um að menn noti ólögleg vopn til fuglaveiða, vopna sem eru hlaðinn miklu fleiri skotum en leyfilegt er. Það eru fáir, ósvífnir einstaklingar sem nota ólögleg vopn til fuglaveiða en atferli þeirra kemur óorði á alla veiðimenn, segir jafnframt í ályktuninni.

Þá er varað við aukinni ásókn í fuglaegg á Austurlandi. „Svo hart er gengið fram að jafnvel er hreinsað hvert einasta egg úr hreiðrum en ekki virt sú forna hefð að skilja ávalt eftir egg í hreiðri. Hófleg nýting hefur ekki áhrif á fuglastofna en þar sem öll egg eru hreinsuð úr hreiðrum hefur það umtalsverð áhrif og getur jafnvel fælt fugla frá því að verpa aftur á viðkomandi slóðum."

Hægt er að nálgast frétt Austurgluggans hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×