Innlent

Börn lenda í hollustuklemmu

Valgerður Halldórsdóttir.
Valgerður Halldórsdóttir.
Velferð barna skal ávallt hafa forgang, samkvæmt þriðju grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við erfiðan skilnað getur þetta ákvæði vafist fyrir foreldrum, þrátt fyrir góðan ásetning, og stjúpforeldrar geta aukið á flækjuna eins og Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi og formaður Félags stjúpfjölskyldna, gerði Gunnþóru Gunnarsdóttur grein fyrir.

„Skilnaðir þýða brostnir draumar og eru oft sársaukafullir. Flestir foreldrar sem ganga í gegnum skilnað hafa áhyggjur af hvernig börnunum muni reiða af og vilja þeim hið allra besta. Það er hins vegar margt sem hefur áhrif á hvernig til tekst. Sé fólk reitt og sárt út í fyrrverandi maka, sem aftur litar öll samskipti, geta börn lent í mikilli togstreitu ef þau eru notuð sem tafl í því spili. Þau eru líka eins og barómet á líðan foreldranna og þjást oft sjálf ef þeim líður illa." segir Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi. Sem dæmi um mistök foreldra nefnir hún að þeir noti börnin stundum sem skilaboðaskjóður sín á milli eða láti þau vera með eftirlit á heimilum hvors um sig. Stærstu skyssuna geri þó þeir foreldrar sem láta sig hverfa úr lífi barna sinna í kjölfar skilnaðar, eða meini börnum að hitta foreldri. Fjarvera geti haft mikil áhrif, rétt eins og nærvera.

„Börn þurfa fullvissu um að þau séu elskuð og að þau skipti foreldra sína máli," segir hún.

Foreldrahlutverkið breytist

Valgerður segir mikilvægt að foreldrar sem standi í skilnaði séu búnir að ræða það sín á milli hvernig þeir ætli að haga hlutunum.

„Það fer illa í börn að vita ekki hvað verður. Þau vilja upplýsingar og þau vilja að foreldrar geti haft góð samskipti sín á milli án þess að draga þau inn í öll mál. Annars lenda þau í hollustuklemmu sem er þeim óholl. Vilji foreldrar setja hagsmuni barna sinna í fyrsta sæti við skilnað má byrja á að taka ákvörðun um að eiga góð samskipti og virða þá staðreynd að börn eiga tvö heimili."

Oft segir Valgerður samskipti barna minnka við það foreldri sem flytur af heimilinu. Nú færist þó í vöxt að foreldrar hafi börnin viku og viku í senn og telur hún það í góðu lagi. Þó verði að hafa í huga að ástæða geti verið til að breyta til og mikilvægt sé að foreldrar meti stöðuna reglulega. Samningar sem gerðir séu þegar börn eru þriggja ára þurfi ekki að henta þeim tíu ára. „Börn sem eru illa stödd félagslega geta átt erfitt með að halda í vini sína ef þau eru stöðugt að skipta um heimili," segir hún og bætir við að stundum upplifi börn og ungmenni að þau eigi hvorki heima hjá mömmu né pabba.

„Það kemur flestum á óvart hvað foreldrahlutverkið breytist með skilnaði," segir Valgerður. „Barnið er allt í einu orðið hluti af lífi sem foreldri hefur ekki aðgang að. Foreldrið þekkir ekki vinina sem barnið umgengst á hinu heimilinu né fjölskyldur sem það kynnist þar. Þetta er óþægileg staða. Þess vegna er svo mikilvægt að foreldrar geri allt sem í þeirra valdi stendur til að hafa samskiptin sín á milli í lagi, þá verður miklu hægara að halda yfirsýn. Eða hversu margir unglingar leika ekki lausum hala af því að foreldrar þeirra tala ekki saman?"

Að ætla sér um of

Valgerður er formaður í Félagi stjúpfjölskyldna sem heldur meðal annars úti heimsíðunni www.stjuptengsl.is. „Ég hef alla ævi verið í einhvers konar stjúpfjölskyldu og þegar ég sem einhleyp móðir giftist einhleypum föður kynntist ég því vel á eigin skinni. Svo er ég sem félagsráðgjafi oft með viðtöl sem snerta slík mál þannig að ég þekki þau frá öllum hliðum," segir Valgerður sem einmitt er að skrifa bók sem kemur út hjá Forlaginu í sumar sem koma ætti fólki vel við skilnað og þegar það stofnar til stjúpfjölskyldu. Hún segir „vondu stjúpuna" eða frekar „pirruðu stjúpuna" enn lifa góðu lífi.

„Fólk fer af stað fullt bjartsýni inn í stjúpforeldrahlutverkið og vill gera vel. Sýni börn ekki þau viðbrögð sem vænst er eða samvinna við foreldri er ekki gott, er stutt í vondu stjúpuna eða vonda stjúpann. Ábyrgðin á því hvernig gengur er ekki eingöngu á ábyrgð stjúpforeldrisins, maki þess og foreldri barnsins skiptir ekki minna máli. Mistökin eru þau að ætla sér um of," segir hún.

Það er barninu fyrir bestu að talað sé um tengslin eins og þau eru og haga sér samkvæmt því, að mati Valgerðar.

„Það kann yfirleitt ekki góðri lukku að stýra að skilgreina stjúpforeldri eins og það sé foreldri barnsins því þá er viss tilhneiging til að skera á tengslin við blóðforeldrið. Stjúpforeldri getur verið góð viðbót við þann kjarna sem annast barnið en kemur ekki í stað foreldris," segir hún.

Tíð tengslarof slæm

Í dag er málum þannig háttað að þegar foreldrar sem fara einir með forsjá barna sinna ganga inn í sambúð eða giftast aftur fær stjúpforeldrið sjálfkrafa forsjá barnsins. Valgerður er þeirrar skoðunar að kippa eigi þeirri forsjá úr sambandi en gera stjúpforeldrum mögulegt að sækja um forsjá barns, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hún segir tíð tengslarof hafa slæm áhrif á börn. Stundum komi stjúpur og stjúpar inn í líf barna tímabundið en umgengnin eftir skilnað verði að fara eftir samkomulagi.

„Í sumum tilvikum hefur stjúpforeldrið verið í foreldrahlutverki og væntumþykja skapast á báða bóga. Ef vilji beggja er til að viðhalda sambandinu má bjóða barninu öðru hvoru í bíó eða heimsókn. Stundum styrkist sambandið og stundum dofnar það."

Erfiðustu dæmin um svona mynstur segir Valgerður vera þegar stjúpforeldri hefur verið í foreldrahlutverki og á annað barn á heimilinu sem það umgengst reglulega. „Það getur verið sárt fyrir barn að horfa á eftir systkinum sínum fara, en vera skilið eftir eða ekki leyft að fara með. Deilur stjúpforeldra og foreldra við skilnað bitna oft á börnunum." segir hún.

Þyrfti ókeypis ráðgjöf

Valgerður telur mikilvægt að samfélagið styðji við fólk sem er að fara í gegnum skilnað og við stjúpfjölskyldur þannig að þær geti fengið ráðgjöf án þess að þurfa að opna budduna.

„Fólki er boðið á námskeið þegar það eignast barn og ættleiðir barn en ef það er að gerast stjúpforeldri þá fær það enga formlega leiðsögn, því mundi ég vilja breyta. Ég vil sjá að um leið og fólk skráir sig í sambúð eða lætur gefa sig saman þá standi því námskeið til boða ef það er á leið í stjúpfjölskyldu. Í því fælist mikilvæg barna- og fjölskylduvernd."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×