Innlent

Hægt að sjöfalda lífræna framleiðslu

Erla Hlynsdóttir skrifar
Raunhæft er að stefna að sjöföldun lífrænnar framleiðslu á íslenskum markaði fyrir lok þessa áratugar. Þetta segir formaður þingnefndar um eflingu græna hagkerfisins.

Samtök lífrænna neytenda skilaði í dag skýrslu sinni til yfirvalda um hvernig móta skuli stefnu í þessum málum.

Fyrsti aðalfundur Samtaka lífrænna neytenda var haldinn í Reykjavíkurakademíunni í dag, en ár er síðan samtökin voru stofnuð. Tilgangur þeirra er að stuðla að aukinni framleiðslu vottaðra lífrænna vara á Íslandi með velferð almennings, búfjár og umhverfisins að leiðarljósi.

Skýrslan var unnin eftir fund félagsmanna með landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra þar sem sérstaklega var óskað eftir hugmyndum samtakanna.

„Við erum þó það vel sétt, versus meginland Evrópu til dæmis, að skrefin sem við þurfum að taka til að efla lífræna ræktun eru miklu minni og ódýrari heldur en heldur en á meginlandi Evrópu vegna þess að við erum einangrað land og höfum þurft að nota minna af eiturefnum og slíku," segir Örn Haraldsson, fulltrúi Samtaka lífrænna neytenda.

Skýrsla samtakanna var kynnt á aðalfundinum og hún afhent Skúla Helgasyni, formanni þingnefndar um eflingu græna hagkerfisins. Í skýrslunni er meðal annars lagt til að hlutfall lífrænnar framleiðslu á Íslandi verði orðin fimmtán prósent árið 2020.

„Það er alveg rétt að þetta er mjög metnaðarfullt markmið því hlutdeild lífrænt vottaðra vara á íslenskum markaði í dag er í kring um tvö prósent, og það kallar á gríðarlegt átak ef við ætlum að ná þessu hlutfalli upp í fimmtán prósent. við erum hins vegar þeirrar skoðunar að þetta sé vel hægt ef við förum strax í að leggja fram tillögur um áfanga á þessari leið," segir Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar.

Þetta markmið er í samræmi við þingsályktunartillögu nefndarinnar sem var samþykkt á dögunum með öllum greiddum atkvæðum. Næsta skref Skúla er að kynna skýrslu Samtaka lífrænna neytenda fyrir þingmönnum og ráðherrum sem að málaflokknum koma.

Á vef Samtaka lífrænna neytenda má lesa skýrsluna, sem og skýrslu framkvæmdanefndar samtakanna fyrir fyrsta starfsárið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×