Innlent

Krefjast þess að framkvæmdir hefjist nú þegar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frá Eskifirði, sem er hluti af Fjarðabyggð.
Frá Eskifirði, sem er hluti af Fjarðabyggð.
Það stendur til að ganga í hvert hús í Fjarðabyggð í dag og næstu daga til þess að safna undirskriftum íbúa til að skora á Alþingi og ríkisstjórn Íslands um að framkvæmdir hefjist nú þegar við gerð Norðfjarðarganga. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir i tölvupósti til fjölmiðla að meðlimir félagasamtaka, bæjarfulltrúar, bæjarstjóri, stjórnendur fyrirtækja og stofnana í Fjarðabyggð verði meðal þeirra sem ganga á milli húsa í bæjarhverfunum sex til þess að safna undirskriftum.

En það eru fleiri en íbúar í Fjarðabyggð sem eru ósáttir við að hægt gangi í vegagerð. Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, benti á það í yfirlýsingu sem hún sendi fjölmiðlum í gær að verið væri að fresta fjölmörgum vegaframkvæmdum í Reykjavík. Nefndi hún þar Sundabraut, mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og göng undir Öskjuhlíð. Gagnrýndi hún meirihlutann í borgarstjórn fyrir að standa að samkomulagi við ríkisvaldið um þessa frestun.

Óvíst er hvort þessi þrýstingur sveitastjórnarmanna hafi nokkuð að segja því að eins og fram kom í fréttum fyrr í vikunni telur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að hægar gangi að ná endum saman í ríkisfjármálum en áður var talið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×