Innlent

Ólafur Arnarson segir stefnuna bjánalega

Ólafur Arnarson.
Ólafur Arnarson.
Ólafur Arnarson segir meiðyrðastefnu Friðriks J. Arngrímssonar, framkvæmdastjóra LÍÚ, á hendur sér bjánalega. Hann treystir því að dómstólar láti ekki frekju og fantaskap verða til þess að venjulegt fólk, eins og hann, verði fyrir stóru fjárhagstjóni.

Friðrik stefnir Ólafi fyrir meiðyrði í kjölfar skrifa sem birt voru á vefmiðlinum Pressunni, í júlí 2010 og í júlí 2011. Friðrik telur að sér vegið í pistlaskrifum Ólafs, en í þeim var haldið fram að LÍÚ, fyrir tilstilli og undir stjórn Friðriks, styddi vefmiðilinn AMX til nafnlausra níðskrifa með dulbúnum fjárframlögum sem næmu tuttugu milljónum á ári. Ólafur gefur ekki mikið fyrir stefnu Friðriks.

„Mér finnst hún dálítið bjánaleg, satt best að segja. Átta mig ekki alveg á því af hverju hann er að fara í meiðyrðamál."

Í kjölfar bréfs sem Ólafi barst frá Friðriki, þar sem sá síðarnefndi hótar málsókn á hendur Ólafi, dragi hann ekki ummæli sín til baka, fjarlægi þau af vefnum og biðjist afsökunar á skrifunum segist Ólafur hafa beðið Friðrik afsökunar á því að hafa mögulega valdið honum hugarangri með sínum skrifum.

Hvað hafðirðu fyrir þér þegar þú spyrtir honum við AMX? „Ég hafði heyrt af þessu eftir mjög áreiðanlegum heimildum, allnokkru áður en ég skrifaði þetta í pistilinn."

Friðrik krefur Ólaf um eina milljón króna í miskabætur og auk þess um 1,6 milljónir til að standa straum af kostnaði við að birta dóminn í fjölmiðlum.

„Ég ber fullt traust til dómstóla að þeir láti ekki svona frekju og fantaskap í mönnum úti í bæ verða til þess að venjulegt fólk, eins og ég, verði fyrir stóru fjárhagstjóni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×