Sport

Kobe Bryant og Carl Lewis í neðanjarðarlestinni í London

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Farþegar í neðanjarðarlestarkerfi Lundúnarborgar geta tekið lestina á Kobe Bryant-stöðinni og farið úr á Carl Lewis-stöðinni. Heitinu á öllum neðanjarðarlestarstöðum borgarinnar verður breytt í tilefni Ólympíuleikanna í sumar.

Lestarstöðvarnar eru 361 talsins og verður hver nefnd í höfuðið á þekktum íþróttamanni. Hver lestarlína hefur sitt þema. Þannig eru stöðvarnar á „central"-línunni nefndar eftir sundköppum á meðan hnefaleikamenn og glímumenn eru fyrirferðamiklir í suðaustur London.

Liverpool-street stöðin mun bera nafn frjálsíþróttakappans Carl Lewis, Oxford Circus verður nefnd eftir sundkappanum Ian Thorpe og LeBron James fær nafn sitt á Leicester Square-stöðina.

Íþróttafréttamennirnir Alex Trickett og David Brooks sáu um gerð kortsins en enginn Íslendingur kemur við sögu.

„Við elskum íþróttir, við elskum lista og við elskum London svo við gátum ekki fengið áhugaverðara verkefni en að taka saman lista yfir 361 bestu íþróttamenn allra tíma og setja á kortið. Það voru fjölmörg deilumál og nokkrar breytingar á lokastundu en við erum ánægðir með útkomuna. Fjölmargar þjóðir eiga fulltrúa og allar keppnisíþróttir leikanna eru með. Þá standa Ali og Phelps, tveir af þeim fremstu sem keppt hafa á leikunum, vörðinn á Stratford-stöðvunum við leikvangana," sögðu Trickett og Brooks.



Smellið hér til að sjá kortið.


Ólympíuleikarnir í Lundúnum hefjast þann 27. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×