Innlent

Jóhanna ætlar að ákveða sig þegar nær dregur kosningum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, útilokar ekki að hún gefi áfram kost á sér sem formaður Samfylkingarinnar fyrir næstu kosningar, en tillaga níu flokksmanna um að flýta landsfundi flokksins var dregin til baka á flokksstjórnarfundi.

Tillagan var lögð fram á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar á Hilton Nordica í dag svo hægt yrði að kjósa nýja forystu eða að núverandi forysta gæti endurnýjað umboð sitt. Andrés Jónsson, fyrrverandi formaður Ungra jafnaðarmanna, var einn þeirra sem lagði tillöguna fram. Áður hafði framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar lagst gegn því að landsfundi yrði flýtt, en aðeins örfáir mánuðir eru frá síðasta landsfundi flokksins.

Hún var síðan dregin til baka á fjórða tímanum í dag. Næsti landsfundur verður því að óbreyttu í febrúar eða mars á næsta ári. En ætlar Jóhanna að gefa kost á sér áfram?

„Ég hef einsett mér að klára þau verkefni sem eru stór og mikil. Fiskveiðistjórnun, stjórnarskráin, rammaáætlun og auðlindamálin almennt. Þetta eru verk sem ég ætla mér að klára og svo verðum við bara að sjá hvað setur þegar nær líður kosningum hvað ég geri. Ég áskil mér auðvitað allan rétt í því og að gefa út hvenær ég áforma að hætta."

Fyrr um morguninn flutti forsætisráðherra ávarp við setningu fundarins. Forsætisráðherra sagði í ræðu sinni á fundinum að ef ríkisstjórninni tækist að klára stór mál sem hún hefði einsett sér að klára þyrfti Samfylkingin ekki að kvíða þess að leggja verk sín í dóm kjósenda í næstu kosningum.

Jóhanna nefndi þar m.a breytingar á stjórnarskránni, breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og aðildarviðræður við ESB. „Þær kosningar munu fyrst og síðast snúast um það hvernig sú ríkisstjórn sem nú starfar, og þeir flokkar sem að henni standa, nýttu það sögulega tækifæri sem þeir fengu í síðustu alþingiskosningum - til að reisa íslenskt samfélag úr rústum hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins og koma því kyrfilega á braut jafnaðarstefnunnar," sagði forsætisráðherra. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×