Innlent

Mengar margfalt meira en áramótabrenna

Höskuldur Kári Schram skrifar
Díoxínmengun frá sorpbrennslunni í Skaftárhreppi er tuttugu og fimm sinnum meiri en frá áramótabrennunni á Kirkjubæjarklaustri. Þetta sýna mælingar umhverfisstofnunar. Bæði sveitarstjóri og þingmenn hafa fullyrt að sorpbrennslan mengi ekki meira en áramótabrennur.

Umhverfisráðherra hafnaði í síðustu viku beiðni Skaftárhrepps um undanþágu til að starfrækja sorpbrennslu þar sem stöðin uppfyllir ekki kröfur um mengunarvarnir.

Ákvörðun ráðherra setur fjárhagsáætlun sveitarfélagsins í uppnám en orka frá brennslunni hefur verið notuð til húshitunar á svæðinu. Sveitarfélagið hefur til 11. janúar til að andmæla ákvörðun ráðherra.

Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, sagði í fréttum Stöðvar tvö í síðust viku að mengun af sorpbrennslunni væri minni en af áramótabrennu.

„Það er meiri mengun af henni, þessa fjóra tíma sem hún logar heldur af sorpbrennslunni hjá okkur allt árið," segir hún.

Undir þetta mat tók Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks, í hádegisfréttum Bylgjunnar á laugardag en hann hefur gagnrýnt ákvörðun ráðherra.

„Þetta er mjög lítil stöð og heildarmengunin á einu ári af díoxín er álíka og ein áramótabrenna á svæðinu," segir Sigurður.

Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisstofnun er díoxínmengun frá sorpbrennslunni hins vegar mun meiri en frá áramótabrennu - eða tuttugu og fimm sinnum meiri. Það er mat stofnunarinnar að díoxínmengun frá brennslunni á ársgrundvelli nemi 25 milligrömmum en mengun frá áramótabrennunni á Kirkjubæjarklaustri er 0,9 milligrömm.

Eygló segir að þetta breyti ekki afstöðu sveitafélagsins til málsins. Hún hafi vísað í áramótabrennur til að setja hlutina í samhengi fyrir almenning.

Þið hafið ekki verið að vanmeta þessa mengun sem kemur frá sorpbrennslunni?

„Nei alls ekki. Við erum ekki að segja að það sé engin mengun af henni. Alls ekki. Þetta er brennsla og við gerum okkur fulla grein fyrir því. En þetta er ekki eins svakalegt og ætla mætti af þeirri umfjöllun sem við fáum," segir Eygló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×