Erlent

Rússar taka upp sumar- og vetrartíma að nýju

Reiknað er með að stjórnvöld í Rússlandi muni aftur breyta klukku sinni, það er hverfa að nýju til sumar- og vetrartíma í landinu.

Á síðasta ári breytti Dmitry Medvedev þáverandi forseti Rússlands klukkunni þannig að varanlegum sumartíma var komið á í landinu. Jafnframt var tímabeltunum í landinu fækkað úr 11 og niður í 9.

Þetta var gert til að létta á álaginu sem fylgdi því að skipta á milli sumar- og vetrartíma. Með því fengu Rússar meira myrkur á morgnanna en meiri dagsbirtu síðdegis.

Margir Rússar hafa hinsvegar kvartað vegna þessa fyrirkomulags og segja að í heild fái þeir minni dagsbirtu í daglegu lífi sínu en áður. Rússar voru nær eina þjóðin í Norður Evrópu í fyrra sem ekki færðu klukku sína aftur um einn tíma í október.

Í umfjöllun um málið á vefsíðu BBC segir að Vladimir Putin núverandi forseti Rússlands hafi verið mótfallinn þessari breytingu hjá fyrirrennara sínum. Sagði Putin í samtali við Interfax fréttastofuna fyrr í sumar að breytingin hefði ekki verið nægilega vel ígrunduð á sínum tíma. Því má reikna með að vetrartími verði settur á að nýju í Rússlandi í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×