Innlent

Haust við Tjörnina valin besta myndin

Sigurmyndin. Hér til hliðar má sjá fleiri gæðamyndir sem voru sendar inn og fyrir neðan má sjá efstu myndirnar í keppninni.
Sigurmyndin. Hér til hliðar má sjá fleiri gæðamyndir sem voru sendar inn og fyrir neðan má sjá efstu myndirnar í keppninni.
Haustið var þema ljósmyndasamkeppni Fréttablaðsins að þessu sinni.

Fjölmargar myndir bárust og sigurvegari varð Þórlindur Kjartansson með myndinni Haust við Tjörnina. Hann hlýtur í verðlaun 22" sjónvarpstæki frá Heimilistækjum.

Önnur og þriðju verðlaun fá Unnar Gísli Sigurmundsson og Inga Vala Birgisdóttir og hlýtur hvort þeirra leikhúsmiða fyrir tvo í Borgarleikhúsið. Dómnefnd skipuðu Pjetur Sigurðsson, ljósmyndari á Fréttablaðinu, Ólafur Stephensen ritstjóri og Arndís Þorgeirsdóttir fréttastjóri.

Hér fyrir neðan má sjá efstu myndirnar í keppninni og hér fyrir ofan má sjá fleiri gæðamyndir sem voru sendar inn.

1. sæti - Sendi myndina í bríaríi
Tígulegur svanur á Tjörninni í Reykjavík með fallega haustliti í bakgrunni.Mynd/Þórlindur Kjartanson
Glæsilegt! Þetta erum við feðgarnir ánægðir með," sagði Þórlindur Kjartansson, sigurvegari í ljósmyndasamkeppninni, þegar honum voru tilkynnt úrslitin. Mynd hans heitir Haust við Tjörnina og Þórlindur hefur þetta að segja um tilurð hennar:

"Það var frí í leikskólanum hjá syninum, Antoni Hauki, þennan fallega haustdag í síðustu viku og við fórum í smá leiðangur og reyndum að taka skemmtilegar myndir. Svo ákvað ég bara í bríaríi að prófa að senda myndina inn í keppnina, átti alls ekki von á því að vinna."

Þórlindur segist vera byrjandi í ljósmyndalistinni, hann sé nýbúinn að eignast nýja myndavél og sé bara að fikta, en sigurinn verði honum hvatning til að halda áfram.

2. sæti
Sigurmundur og Sigríður í Laugardalnum.Mynd/Unnar Gísli Sigurmundsson
"Konan mín, Sigríður Unnur Lúðvíksdóttir, á allan heiðurinn af þessari mynd," segir Unnar Gísli Sigurmundsson, sem hreppti annað sætið.

"Hún stillti sér og syni okkar, Sigurmundi Gísla, upp og sagði mér hvenær ég ætti að smella af. Það er hún sem er myndasmiðurinn á heimilinu, ég er bara amatör." Myndin er tekin í Laugardalnum í Reykjavík.

3. Sæti
Haust í sveitinniMynd/Inga Vala
"Þetta er tekið í Eyjafirðinum, við Hrafnagil," segir Inga Vala Birgisdóttir, sem hreppti þriðja sætið. "Þetta er blessuð Hrafnagilsbelja. Ég fer mikið út að ganga með hundana mína og tek þá myndavélina með og reyni að fanga stemninguna í kringum okkur. Það hefur greinilega tekist vel núna."

4.-5. sæti
Veturinn minnir á sig.Mynd/Arnar Bergur Guðjónsson
Veturinn minnir á sig nefnist þessi mynd Arnars Bergs Guðjónssonar sem lenti í 4.-5. sæti.

"Þessi er tekin á Þingvöllum klukkan 6 að morgni um síðustu helgi," segir Arnar. "Það var stórkostlegt að fylgjast með því þegar gróðurinn var að lifna við eftir næturkuldann."

4.-5. sæti
Haust í Þórsmörk.Mynd/Guðríður Margrét Guðmundsdóttir
Haust í Þórsmörk nefnist þessi mynd Guðríðar Margrétar Guðmundsdóttur sem hreppti 4.-5. sætið.

"Ég var mjög heppin að ná þessari mynd," segir Guðríður. "Veðrið var mjög sérstakt þennan dag og birtan ótrúleg."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×