Innlent

Biskup og vígslubiskupar þakka Guðrúnu Ebbu

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
„Biskupafundur þakkar Guðrúnu Ebbu fyrir þátt hennar í að leiðbeina kirkjunni við að læra af mistökum og gera betur, og samstarf um væntanlegt námskeið um meðferð kynferðisbrota innan trúfélaga," segir í tilkynningu frá Biskupafundi, en þar skrifa undir Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sem hefur ekki viljað tjá sig opinberlega um orð Guðrúnar Ebbu, Jón Aðalsteinn Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum og Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti.

Í yfirlýsingunni kemur fram að kynferðisofbeldi sé glæpur sem eigi aldrei að líðast. Þá segir ennfremur að Þjóðkirkjan hafi markað sér þá stefnu að standa með þeim sem brotið er á.

Hér fyrir neðan má lesa tilkynninguna í heild sinni:

Viðtalið við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur í Kastljósi s.l. sunnudagskvöld vakti mikla sorg, reiði og harm í hugum þjóðarinnar. Framkoma hennar vakti einnig aðdáun vegna þess ótrúlega kjarks, virðingar og yfirvegunar sem hún sýndi. Frásögn hennar hefur snert fjölda fólks um land allt sem lifa við sára reynslu um ofbeldi og misgerð, sár og harm sem aldrei hefur verið horfst í augu við. Kynferðisofbeldi er glæpur og á aldrei að líðast.



Þjóðkirkjan hefur markað sér þá stefnu að standa með þeim sem brotið er á, hlusta á sögu þeirra af athygli og virðingu og vinna með þeim stofnunum og samtökum í þjóðfélaginu sem vinna að viðhorfsbreytingu í þessum efnum. En þar er enn langt í land, því miður. Við erum öll í sársaukafullu lærdómsferli.


Það er harmsefni að erindi Guðrúnar Ebbu til Kirkjuráðs 2009 hafi ekki verið svarað strax skriflega og hefur biskup beðist afsökunar á því í ræðu og riti og persónulega. Það skal þó skýrt tekið fram að vangá við skráningu erindis hennar hafði ekki áhrif á málsmeðferðina.



Þegar var hafist handa um að vinna með þær ábendingar sem hún kom með.


Þjóðkirkjan líður ekki og sættir sig ekki við ofbeldi af einum eða neinum toga. Verið er að vinna að bættum viðbrögðum og eftirfylgd kirkjunnar í slíkum málum bæði með fræðslu og bættum starfsreglum og verkferlum.



Biskupafundur þakkar Guðrúnu Ebbu fyrir þátt hennar í að leiðbeina kirkjunni við að læra af mistökum og gera betur, og samstarf um væntanlegt námskeið um meðferð kynferðisbrota innan trúfélaga. Eins er þakkað þeim fjölmörgu einstaklingum og félagasamtökum um land allt sem vinna ómetanlegt starf við fræðslu og forvarnir, viðhorfsbreytingu í samfélaginu og umönnun þeirra sem líða vegna ofbeldis.


Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.

Jón Aðalsteinn Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum

Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti




Fleiri fréttir

Sjá meira


×