Erlent

Allsherjarverkfall í Grikklandi

Boðað hefur verið til mótmæla víða um landið.
Boðað hefur verið til mótmæla víða um landið. Mynd/AP
Sólarhringsverkfall hófst í morgun í Grikklandi þar sem landsmenn mótmæla kröftuglega niðurskurðartillögum ríkisstjórnarinnar. Skólum hefur verið lokað sem og spítölum og lamast almenningssamgöngur að mestu leyti.

Stærstu verkalýðsfélög Grikklands hafa lagt hart að meðlimum sínum að taka þátt í verkfallinu til þess að sýna stjórnvöldum að ekki verði unað við niðurskurðinn. Verkfallið er fyrsta allsherjarverkfallið sem farið er í eftir ríkisstjórnin kynnti nýjan fasteignaskatt og tilkynnti um uppsagnir á þrjátíu þúsund ríkisstarfsmönnum í síðasta mánuði.

Grikkjum er gert að skera duglega niður í ríkisfjármálunum eigi þeir að fá frekari lánafyrirgreiðslu frá Evrópu en á mánudag ákváðu fjármálaráðherrar á evrusvæðinu að fresta ákvörðun um frekari lánveitingar þegar í ljós kom að áætlanir Grikkja um að draga úr fjárlagahallanum hafa ekki gengið eftir.

Miklar sviptingar hafa verið á hlutabréfamörkuðum um allan heim síðustu vikur og eru þær að miklu leyti raktar til ástandsins í Grikklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×