Innlent

Heildarfjöldi þjóðarinnar sótti Hörpuna síðustu fimm mánuði

Harpa þegar ljósin voru tendruð.
Harpa þegar ljósin voru tendruð.
Nú þegar 5 mánuðir eru liðnir frá opnun Hörpu hafa rúmlega 350.000 manns sótt Hörpu heim sem er ríflega heildarfjöldi þjóðarinnar.

Það er u.þ.b. 30% fleiri en áætlanir gerðu ráð fyrir samkvæmt tilkynningu frá forsvarsmönnum Hörpunnar.

Talning er alla daga í Hörpu auk þess sem miðað er við alla þá sem sótt hafa viðburði hvort sem um er að ræða tónleika, ráðstefnur eða fundi eða komið til að skoða húsið og á aðra viðburði.

Þá hefur sala á áskriftarkortum hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands aukist um 70% á milli ára.

Ljóst er að húsið hefur verið þétt bókað og mikil eftirspurn eftir því hvort sem er á sviði tónlistarviðburða eða ráðstefnu og fundarhalda. Einnig hafa ferðaskrifstofur tekið eftir marktækum mun á bókunum hópa til landsins nú á haustmánuðum sem hafa í hyggju að sækja viðburði í Hörpu.

Á þetta jafnt um tónlistarhátíðina Airwaves sem jafnan er vel sótt af erlendum gestum, Biophiliu Bjarkar sem seldist upp á skömmum tíma og frumsýningu Íslensku óperunnar á Töfraflautunni sem fyrirhuguð er þann 22. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×