Innlent

Vill sýningarsalina líka í Garðabæinn

Húsið er 3.500 fermetrar að stærð en náttúruminjasafnið yrði 1.500 fermetra viðbygging samkvæmt frumdrögum. fréttablaðið/gva
Húsið er 3.500 fermetrar að stærð en náttúruminjasafnið yrði 1.500 fermetra viðbygging samkvæmt frumdrögum. fréttablaðið/gva
Gunnar Einarsson, bæjar­stjóri í Garðabæ, vill að nýtt náttúru­minjasafn rísi við hlið nýrra höfuð­stöðva Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) í Urriðaholti.

Nýtt glæsilegt húsnæði, sem var opnað formlega um miðjan desember, gjörbyltir starfsumhverfi vísindamanna.

Þar með lauk 120 ára baráttu Náttúrufræðistofnunar fyrir því að geta boðið starfsfólki sínu upp á frambærilega rannsóknaraðstöðu. Þá var hægt í fyrsta skipti að bjóða vísindamönnum og nemendum í náttúrufræðum óheftan aðgang að vísindasöfnum stofnunarinnar til rannsókna. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Jóns Gunnars Ottóssonar, forstjóra NÍ, við vígslu hússins.

Byltingin með nýju húsnæði felst ekki síst í því að umfangsmikil og verðmæt náttúrusýni Náttúrufræðistofnunar eru nú varðveitt við bestu skilyrði. Safnaskálar uppfylla strangar öryggiskröfur. Brunavarnir eru eins og best verður á kosið ásamt nákvæmu eftirliti með loftræstingu, hita og raka.

Hingað til hafa vísindasöfnin verið geymd við bágbornar aðstæður. Þegar flæddi inn í geymslur í Súðavogi í febrúar var það í fimmta sinn á nokkrum árum sem NÍ varð fyrir skakkaföllum af því tagi.

Gunnar styður þá hugmynd heils hugar að Náttúruminjasafn, sem er sjálfstæð stofnun, flytji líka í Urriðaholtið. „Það er búið að gera frumdrög að húsinu á þessum stað og ég tel að slík aðstaða myndi sóma sér vel við hlið Náttúrustofnunar."

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði til á þingi fyrir rúmu ári að náttúruminja­safn fengi inni í Þjóðmenningar­húsinu við Hverfisgötu og sagði það fráleitt að Íslendingar ættu ekkert slíkt safn. Undir orð hennar tók Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og sagði að búið væri að endurvekja hóp sem færi yfir húsnæðismálin í samvinnu ríkis og Reykjavíkurborgar.

Náttúruminjasafn var lengi starfrækt við Hlemm. Með setningu laga um Náttúruminjasafn Íslands 2007 lauk hlutverki þess sem sýningarsafns á vegum Náttúrufræðistofnunar.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×