Innlent

Heilsustofnun óttast erfðabreytta ræktun

Efst í vinstra horni sést starfsemi Landbúnaðarháskólans en HNLFÍ fyrir miðri mynd. Um 700 metrar eru á milli í beinni loftlínu.mynd/HNLfí
Efst í vinstra horni sést starfsemi Landbúnaðarháskólans en HNLFÍ fyrir miðri mynd. Um 700 metrar eru á milli í beinni loftlínu.mynd/HNLfí
Forsvarsmenn Heilsustofnunarinnar í Hveragerði óttast að ræktun erfðabreytts byggs í næsta nágrenni geri áratuga uppbyggingarstarf að engu. Ímynd fyrirtækisins sé í hættu. Í rökum fyrir ræktunarleyfi er engin hætta talin á mengun.

Forsvarsmenn Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) sem á og rekur Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði hafa þungar áhyggjur af fyrirhugaðri ræktun erfðabreyttra plantna í tilraunagróðurhúsi Landbúnaðarháskólans að Reykjum. Gróðurhúsið er innan við kílómetra frá stofnuninni, langt innan þeirra fjarlægðarmarka sem höfð eru til hliðsjónar fyrir lífræna vottun erlendis.

Ingi Þór Jónsson, markaðsstjóri HNLFÍ, segir að lífræn ræktun sé mikilvægur hluti starfseminnar og þeirrar ímyndar sem byggð hafi verið upp á löngum tíma. Hann segir að NLFÍ fordæmi erfðabreytingar í náttúrunni en þegar kemur að ræktun innandyra hljóti að vera krafa um að engin hætta sé á mengun. Hins vegar sé mörgum spurningum ósvarað hvað það varðar og náttúran eigi að njóta vafans. Því setji félagið spurningar við tilraunaræktun í gróðurhúsi Lbhí og þær forsendur sem liggja til grundvallar leyfi Umhverfisstofnunar.

„Umrædd leyfisveiting gefur tilefni til þess að hafa þungar áhyggjur. Þetta er grafalvarlegt mál,“ segir Ingi Þór.

Umhverfisstofnun gaf út leyfi til ORF Líftækni hf. fyrir ræktun á erfðabreyttu byggi í gróðurhúsi LbhÍ 30. nóvember. Verndun og ræktun (VOR) gagnrýndi þá ákvörðun hart með þeim rökum að skólinn væri kominn langt út fyrir hlutverk sitt.

Ágúst Sigurðsson rektor svaraði því til að rök VOR ættu sér enga stoð. ORF fengi lítið hólf í gróðurhúsinu til afnota, sem ekki væri nýtt hvort sem er. Umsókn og ræktunarleyfi Umhverfisstofnunar er hins vegar til ræktunar í öllu húsinu, eða á 1.100 fermetrum.

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá UMÍS ehf. Environice, hefur bent á að í reglum bresku vottunarstofunnar Soil Association fyrir lífræna ræktun kemur fram, að séu erfðabreyttar lífverur ræktaðar í minna en sex mílna fjarlægð (9,6 kílómetra) þurfi sá sem sækir um lífræna vottun að tilkynna um nábýlið, og í framhaldinu að fara í gegnum sérstakt áhættumat, þar sem skoðað er hvort erfðabreytt efni geti hugsanlega mengað framleiðsluna og þannig komið í veg fyrir að unnt sé að votta hana sem lífræna.

Evrópskar vottunarstofur fyrir lífræna ræktun fylgja allar sömu reglum í öllum aðalatriðum. Það þýðir ekki að þeir geti ekki fengið vottun, en ljóst að þeir séu ólíklegri til þess en framleiðendur á öðrum svæðum og þurfi væntanlega að bera meiri kostnað, að sögn Stefáns.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×