Innlent

Kólnandi veður á landinu næstu daga

Veður fer kólnandi á landinu á morgun með norðanátt á Vesturlandi og snjókomu. Úrkoman færir sig svo yfir Norður- og Austurlandið í næstu viku. Suðurland sleppur mestmegnis við snjó, en norðanáttin verður köld og nokkuð hvöss.

Hressilegt haglél gerði á Selfossi í gærmorgun svo glumdi hátt í húsþökum og bílum. Það stóð þó aðeins yfir í um það bil þrjár mínútur, en höglin voru allt að fimm millimetrar í þvermál.

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að eldingar hafi mælst vestur af landinu, en þær komi oft þegar óstöðugleiki er í loftinu, líkt og haglél.

„Þegar mikil ólga er í skýjum, með miklu upp- og niðurstreymi, getur myndast rafmagn og spenna sem veldur eldingum," segir hann.

Spurður hvort veturinn komi á morgun, svarar hann að á Veðurstofunni séu október og nóvember enn skilgreindir sem haustmánuðir, og er því ekki tilbúinn að taka undir það, þótt hann fari vissulega kólnandi.

„En við sleppum hérna sunnanlands við snjókomuna. Það verður norðanþræsingur, nokkuð köld og björt norðanátt," segir hann og bætir við að svo sé spáin út næstu viku. Á miðvikudag verði líklega um frostmark um landið allt.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×