Innlent

Búið að ráðstafa öllu nema 7,5 milljónum

Búið er að ráðstafa um sex milljónum af Mottumarsfé í rannsóknir á þessu ári.
Búið er að ráðstafa um sex milljónum af Mottumarsfé í rannsóknir á þessu ári. Mynd/fréttablaðið/gva
Rúmlega 35 milljónir af þeim 40 sem heitið var hafa skilað sér inn til Krabbameinsfélagsins vegna Mottumars. Áheit á netinu áttu að skila inn tæpum 30 milljónum og fyrirtæki áttu að skila inn um 10 milljónum. Enn vantar um þrjár milljónir af áheitum af netinu og um tvær milljónir frá fyrirtækjum. Þeim sem heita á einstaklinga vegna Mottumars ber engin lagaleg skylda til þess að greiða inn til félagsins.

Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins, segir að nú sé verið að leggja lokahönd á bókhaldið vegna Mottumars og félagið sé að reyna að ýta við þeim sem eigi eftir að borga.

Búið er að ráðstafa stærsta hluta fjármagnsins og er stjórn Krabbameinsfélagsins nú að fara yfir eftirstöðvarnar, að sögn Ragnheiðar. Það sem er óráðstafað af fénu eru 7,5 milljónir.

„Við höfum ráðstafað þessu í fræðslu og ýmiss konar forvarnir, meðal annars með því að efla heimasíðuna,“ segir hún. „Þetta er að skila mjög miklum árangri, þess vegna erum við tilbúin að halda áfram. Það var mikið um að karlmenn leituðu til heilsuþjónustunnar á síðasta ári og þessu, og fleiri leituðu til ráðgjafarþjónustunnar.“

Það sem af er ári hefur um sex milljónum verið ráðstafað í rannsóknarstarf, þar með talið í auglýsingaherferð tengda könnun á karlmönnum og krabbameini. Annar kostnaður fyrir átakið, innanhússtörf, stjórnun átaksins og skipulag, starf Ragnheiðar og markaðsstjórans, er í kringum fimm milljónir króna.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×