Innlent

70 hættu að styrkja í september

Þessi börn ganga í skóla ABC í Úganda, sem er eitt margra landa þar sem samtökin reka skóla.
Þessi börn ganga í skóla ABC í Úganda, sem er eitt margra landa þar sem samtökin reka skóla.
Sjötíu styrktaraðilar ABC barnahjálpar á Íslandi hafa hætt að styrkja samtökin í þessu mánuði. Samtökin finna sterkt fyrir erfiðu efnahagsástandi.

„Fyrir hrun voru að bætast við hjá okkur að meðaltali tveir til þrír nýir stuðningsaðilar á hverjum einasta degi en síðan hrunið varð fækkar þeim jafnt og þétt,“ segir Margrét Blöndal, skrifstofustjóri ABC. „Þetta kemur í bylgjum en við héldum að botninum væri náð.“ Svo hefur ekki reynst vera því ný bylgja kom nú í september.

Skólar ABC barnahjálpar í mörgum löndum berjast í bökkum vegna fjárskorts. Mikill fjöldi barna í skólunum er nú án stuðningsaðila. Því var sent út bréf til stuðningsaðila hér á landi og þeir beðnir um að áframsenda bréfið á fólk sem gæti verið aflögufært.

„Við finnum strax viðbrögð. Þeir sem eru stuðningsaðilar geta hækkað gjaldið, tekið að sér önnur börn eða bent öðrum á,“ segir Margrét. Hún segir einnig að fólk geti styrkt starfið um lægri upphæðir á mánuði en venjan er. „Það er mikilvægt líka, það er ekkert lágmark og fólk gefur eins og það getur.“ - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×