Erlent

Telja Gaddafí vera í Bani Walid

Byltingarmenn í Líbíu hafa mætt harðri mótspyrnu stuðningsmanna Gaddafís. nordicphotos/AFP
Byltingarmenn í Líbíu hafa mætt harðri mótspyrnu stuðningsmanna Gaddafís. nordicphotos/AFP
Bráðabirgðastjórn byltingarmanna í Líbíu telur sig hafa öruggar heimildir fyrir því að Saif al Islam, sonur Múammars Gaddafí, sé í Bani Walid. Líklegt þykir að Gaddafí sjálfur sé þar einnig.

Stuðningsmenn Gaddafís hafa varist hatrammlega í borgunum Bani Walid, Sirte og Sabha, en uppreisnarherinn hefur þó sótt nær þessum borgum dag frá degi.

Abdullah Kenshil, talsmaður þjóðarráðs byltingarmanna, segir að Bani Walid muni falla innan fárra sólarhringa, því einungis fámennt lið stuðningsmanna Gaddafís sé þar enn. Liðsmönnum Gaddafís tókst þó á sunnudag að hrekja lið uppreisnarmanna frá borginni og skutu meðal annars flugskeytum á innrásarliðið en harðir bardagar héldu áfram í gær. Samningaviðræður eru sagðar standa yfir um að almennir borgarar fái örugga flóttaleið frá Bani Walid.

Uppreisnarmenn hafa nú þegar náð á sitt vald flugvelli og hallarbyggingu í Sabha og hart er barist við Sirte, fæðingarstað Gaddafís.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×