Innlent

Thor heiðraður á Riff

Rithöfundurinn Thor Vilhjálmsson verður heiðraður á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík.
Rithöfundurinn Thor Vilhjálmsson verður heiðraður á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík.
Rithöfundurinn sálugi Thor Vilhjálmsson verður heiðraður á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík. Stofnaður hefur verið um hann minningarsjóður.

„Okkur finnst þetta mjög vel við hæfi," segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík.

Forsvarsmenn Riff-hátíðarinnar hafa ákveðið að heiðra rithöfundinn Thor Vilhjálmsson, sem lést í vor. Stofnaður hefur verið minningarsjóður um hann og einnig verða veitt verðlaun á hátíðinni í hans nafni fyrir bestu íslensku stuttmyndina.

„Thor var mjög duglegur að mæta á hátíðina og var einn okkar helsti stuðningsmaður," segir Hrönn. „Við höfðum samband við fjölskylduna hans og bárum undir hana þessa hugmynd og þessu var vel tekið."

Efnt verður til heiðurssýningar á hátíðinni í minningu Thors. Sýnd verður ein af hans uppáhaldsmyndum, Ikiru eftir Akira Kurosawa, og leikstjórinn Friðrik Þór Friðriksson flytur kveðju fyrir hönd íslenskra kvikmyndagerðarmanna við það tækifæri.

Verðlaun fyrir bestu stuttmyndina hafa ekki verið veitt áður á Riff-hátíðinni. Þau verða afhent af Einari Erni Benediktssyni, formanni ferða- og menningarmálaráðs Reykjavíkurborgar, við athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur. Í dómnefndinni sitja þau Árni Ólafur Ásgeirsson leikstjóri, Ásgeir H. Ingvarsson gagnrýnandi og Silja Hauksdóttir leikstjóri.

Aldrei hafa fleiri stuttmyndir verið sendar á Riff-hátíðina í ár. Sýnd verður 21 stuttmynd eftir leikstjóra á borð við Dögg Mósesdóttur, Ísold Uggadóttur og Ara Alexander Ergis Magnússon.

freyr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×