Innlent

Tollar miða við neysluumhverfi frá 1995

þorgerður katrín gunnarsdóttir
þorgerður katrín gunnarsdóttir
Tekist var á um tolla á landbúnaðarvörur á Alþingi í gær. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var málshefjandi í utandagskrárumræðu og spurði hún Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þriggja spurninga: Ætlar ráðherra að breyta tollaumhverfi til samræmis við álit umboðsmanns Alþingis, ætlar hann að breyta landbúnaðarkerfinu með hliðsjón af breyttu neysluumhverfi og ætlar hann að auka innflutning á búvörum?

Jón fór yfir stöðu málaflokksins, en fátt var um svör við spurningunum þremur. Þó sagði hann í seinni ræðu sinni að hann hygðist ekki setja íslenska matvælaframleiðslu í hættu með því að opna fyrir takmarkalausan innflutning.

Þorgerður Katrín benti á þá staðreynd að Ísland hefði skuldbundið sig til að hleypa inn ákveðnu magni af erlendum búvörum með aðild að GATT-samningnum árið 1995. Miðað væri við 3 prósent af innanlandsframleiðslu. Kvótarnir tækju enn mið af því neysluumhverfi sem var við undirritun samninganna fyrir sextán árum.

Fjölmargir þingmenn tóku þátt í umræðunni og kölluðu þau Magnús Orri Schram og Ólína Þorvarðardóttir, þingmenn Samfylkingarinnar, og Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, eftir heildstæðri endurskoðun á landbúnaðarkerfinu.

Aðrir, eins og framsóknarmennirnir Höskuldur Þórhallsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, og Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vinstri grænum, tóku undir með landbúnaðarráðherra að innlenda framleiðslu og matvælaöryggi bæri að tryggja.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×