Innlent

Vatn frá bílaplani skóp holuna

Vegurinn niður Almannagjá liggur ofan á uppfyllingu og jarðskjálftar losuðu um steinana. Vatnsagi gróf síðan undan veginum og skapaði jarðfallið.
Vegurinn niður Almannagjá liggur ofan á uppfyllingu og jarðskjálftar losuðu um steinana. Vatnsagi gróf síðan undan veginum og skapaði jarðfallið.
Vatn frá bílaplani ofan við Almannagjá sytraði undir veginn niður gjána og varð til þess að jarðfall myndaðist á veginum. Losnað hafði um uppfyllinguna í jarðskjálftunum 2000 og 2008 og regn- og yfirborðsvatn gróf síðan undan veginum og því fór sem fór.

Álfheiður Ingadóttir, formaður Þingvallanefndar, segir að farið verði í umfangsmiklar endurbætur á planinu. Það var lagt árið 1974 í tilefni 1.100 ára afmælis Íslandsbyggðar. Síðan hefur ekkert verið átt við planið. Frágangur þar verður lagaður og nýtt dren lagt, sem beinir vatninu annað. Samkvæmt deiliskipulagi og ákvörðun nefndarinnar fær planið nýtt hlutverk og bílum verður úthýst þaðan.

Álfheiður segir að nýja gjáin sem myndaðist á veginum, sem nefndur er Kárastaðastígur, verði varðveitt. Ýmsar leiðir eru nefndar til sögunnar, meðal annars að leggja harðplast eða plexígler yfir holuna eða koma þar fyrir stálgrind. Jafnvel kemur til greina að koma lýsingu fyrir ofan í gjánni svo gestir geti virt hana betur fyrir sér.

Kostnaður nemur 22 til 38 milljónum króna, eftir því hvaða leið verður fyrir valinu. Líklegast er að kostnaður verði á bilinu 22 til 25 milljónir króna.

Fyrstu framkvæmdir við veginn voru gerðar árið 1830 og hann síðan fullkláraður fyrir konungskomuna árið 1907. Álfheiður segir að eingöngu sé um uppfyllingu að ræða og skjálftarnir og vatnið hafi því grafið undan veginum.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×