Erlent

Gríska þingið féllst á aðhaldspakkann

Allt logaði í óeirðum fyrir utan þinghúsið meðan þingmenn gengu til atkvæða.
Allt logaði í óeirðum fyrir utan þinghúsið meðan þingmenn gengu til atkvæða. Nordicphotos/AFP
Gríska þingið samþykkti í gær hið óvinsæla aðhaldsfrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem tryggir að Grikkland fái næstu greiðslu frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þar með eru Grikkir sloppnir fyrir horn í bili og geta greitt næstu afborganir af himinháum lánum ríkissjóðs.

Einungis einn þingmaður stjórnarflokksins PASOK hljópst undan merkjum og greiddi atkvæði gegn frumvarpinu, en á móti kom að ein þingkona stærsta flokks stjórnarandstöðunnar greiddi atkvæði með frumvarpinu.

Meðan þingmenn greiddu atkvæði um málið logaði allt í óeirðum á Stjórnarskrártorginu fyrir utan þinghúsið í Aþenu. Allsherjarverkfall hafði einnig að nokkru lamað þjóðlífið í landinu.

„Við verðum að koma með öllum ráðum í veg fyrir hrun landsins,“ sagði Giorgios Papandreú forsætisráðherra í ræðu sinni á þingi í gær. „Fyrir utan eru margir að mótmæla. Sumir þeirra eiga sannarlega um sárt að binda, aðrir eru að missa forréttindi sín. Það er lýðræðislegur réttur þeirra, en hvorki þeir né nokkur annar á nokkru sinni að þurfa að þola afleiðingar af hruni.“

Seinni hluti aðhaldspakkans verður afgreiddur á þinginu í dag og er almennt reiknað með að hann verði samþykktur.

Æðstu embættismenn Evrópusambandsins og leiðtogar helstu aðildarríkja þess fögnuðu niðurstöðu gríska þingsins.

Óánægjan kraumar hins vegar með grísku þjóðinni. „Þetta er slæmt,“ sagði Dimitris Kostopoulos tryggingasali, sem tók þátt í mótmælunum. „Stjórnin hefur enn einu sinni svikið okkur.“

Í maí á síðasta ári samþykktu Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn 110 milljarða evra aðstoð til Grikklands, sem sá ekki fram á að geta greitt afborganir af ríkisskuldum.

Grikkir hafa nú þegar fengið 48 milljarða greidda og eiga að fá 12 milljarða fljótlega eftir mánaðamótin, verði aðhaldsaðgerðirnar samþykktar.

Á síðustu vikum hefur hins vegar komið í ljós að 110 milljarða aðstoðin dugar ekki, þannig að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa nú í hyggju að samþykkja annan aðstoðarpakka, líklega upp á 120 milljarða evra. Gríska stjórnin segist vonast til þess að sá pakki verði tilbúinn í haust.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×