Innlent

Ekkert dregur úr óánægju með stjórnmálaflokkana

Óánægja almennings með hefðbundna stjórnmálaflokka virðist síst á undanhaldi ef marka má hlutfall þeirra sem afstöðu taka í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 á fylgi stjórnmálaflokkanna.

Aðeins 52,5 prósent gáfu upp ákveðinn flokk þegar spurt var hvað fólk myndi kjósa ef gengið yrði til þingkosninga nú. Könnunin var gerð á miðvikudag og fimmtudag í síðustu viku.

Af þeim sem ekki gáfu upp afstöðu sína sögðust um 22 prósent ekki ætla að mæta á kjörstað, eða ætla að mæta og skila auðu. Ellefu prósent sögðust óákveðin, og fjórtán prósent vildu ekki svara spurningunni.

Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti stjórnmálaflokkurinn. Af þeim sem afstöðu taka í könnuninni segjast 41,2 prósent styðja flokkinn. Heldur dregur úr stuðningnum frá síðustu könnun, sem gerð var 19. janúar síðastliðinn, þegar 43,4 prósent sögðust myndu kjósa flokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn naut stuðnings 23,7 prósenta í síðustu kosningum, og er því nærri tuttugu prósentustigum yfir kjörfylgi.

Yrðu niðurstöður kosninga í samræmi við niðurstöður könnunarinnar fengi flokkurinn 28 þingmenn, en er með sextán í dag.

Alls sögðust 26 prósent myndu kjósa Samfylkinguna yrði gengið til kosninga nú. Það er nær óbreytt fylgi frá því í könnuninni í janúar. Flokkurinn fékk 29,8 prósent atkvæða í síðustu kosningum, og er því enn um fjögur prósentustig undir kjörfylgi.

Samfylkingin fengi samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar sautján þingmenn, en er með 20 í dag.

Heldur dregur úr stuðningi við Vinstri grænt samkvæmt könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Nú segjast 15,7 prósent styðja flokkinn, en 16,5 prósent sögðust myndu kjósa hann í síðustu könnun, sem gerð var 19. janúar síðastliðinn. Flokkurinn fékk 21,7 prósent atkvæða í kosningunum fyrir tæpum tveimur árum, og mælist því um sex prósentustigum undir kjörfylgi.

Yrðu niðurstöður kosninga í takt við könnunina félli þriðji hver þingmaður vinstri grænna af þingi. Flokkurinn fengi tíu menn kjörna en er í dag með fimmtán þingmenn.

Litlar breytingar hafa orðið á fylgi Framsóknarflokksins frá síðustu könnun. Flokkurinn mælist með stuðning 11,7 prósenta kjósenda nú, en 11,8 prósent í síðustu könnun. Flokkurinn er því enn ríflega þremur prósentustigum undir kjörfylginu, sem var 14,8 prósent.

Framsóknarflokkurinn fengi miðað við þetta átta þingmenn, en er með níu í dag.

Hreyfingin nýtur nú stuðnings 3,6 prósenta þeirra sem afstöðu taka í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Fylgi flokksins hefur rokkað nokkuð upp og niður í könnunum, mældist 1,5 prósent í janúar síðastliðnum, en 3,6 prósent í febrúar í fyrra. Flokkurinn fengi ekki mann kjörinn yrðu þetta niðurstöður kosninga.

Hringt var í 800 manns miðvikudaginn 23. febrúar og fimmtudaginn 24. febrúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var að lokum spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk? Þráspurt var með þessum hætti til að auka nákvæmni niðurstöðunnar. Alls tóku 52,5 prósent afstöðu.

brjann@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.