Innlent

Segir sveitarfélögin eins og mismunandi konungsdæmi

„Í dag virkar þetta eins og konungsdæmi sem verður ekki hróflað við nema á fjögurra ára fresti,“ sagði Gestur Ólafsson, skipulagsfræðingur og arkitekt í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag þegar skipulagsmál voru rædd.

Gestur er fylgjandi því að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu svo það sé hægt að koma upp almennilegu svæðisskipulagi. Gestur sagði að það væru ekki eingöngu fólgin hagkvæmnistækifæri í hugmyndinni, það er að segja pening sem sparast til dæmis vegna yfirstjórnar; annar kostnaður myndi stórlækka, eins og bensínkostnaður fjölskyldna. Þannig myndi sparast mun meira með betra skipulagi.

Hann bendir á að það sé hægt að sameina Kópavog, Reykjavík, Seltjarnarnes og jafnvel Mosfellsbæ í eitt skipulagssvæði. „Það er hugsanlega líka hægt að kjósa beint í sérstaka nefnd en ekki bara skipa pólitískt í hana,“ sagði Gestur sem þykir skipulag á höfuðborgarsvæðinu slæmt og vill skipuleggja allt höfuðborgarsvæðið en ekki sveitarfélag fyrir sveitarfélag.

Hann segir að það sé ekki eðlilegt að skipuleggja byggð tvö hundruð metrum yfir sjávarmáli og það yfir sprungusvæði að auki.

Gestur bendir á að svæðiskipulag í borginni sé tíu ára gamalt og margt hafi gerst á síðustu tíu árum.

„Skipulag hér á  landi er ekki alvöru skipulag, heldur sýndarskipulag,“ sagði Gestur sem vill vinna alvöru stefnumótagreiningu, eða staðarvalsgreiningu, „en þetta eru orð sem eru nánast óþekkt hér á landi en eru samt notuð við skipulagsvinnu allt í kringum okkur,“ sagði Gestur til þess að undirstrika hversu aftarlega á merinni skipulag á höfuðborgarsvæðinu er.

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við hann í viðhengi hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×