Lífið

Lætur Gettu betur ekki nægja

Laufey Haraldsdóttir er svo upptekin að hún er önnur tveggja menntaskólastúlkna sem aldrei hafa fylgst með ástum og örlögum læknanna í Grey‘s Anatomy.
Laufey Haraldsdóttir er svo upptekin að hún er önnur tveggja menntaskólastúlkna sem aldrei hafa fylgst með ástum og örlögum læknanna í Grey‘s Anatomy. fréttablaðið/Vilhelm
Laufey Haraldsdóttir var í sigurliði Kvennaskólans í Reykjavík í Gettu betur í vor. Hún lætur til sín taka í félagslífi skólans, er illa við að hanga á sófanum og stefnir á leiklistarnám í framtíðinni.

„Félagslífið er bara svo ótrúlega skemmtilegt,“ segir Kvennaskólamærin Laufey Haraldsdóttir sem varð landsþekkt í vor þegar hún varð fyrst kvenna til að bera sigur úr býtum í spurningakeppninni Gettu betur.

Þótt mörgum þætti eflaust nóg að æfa fyrir keppnina og stunda skólann getur Laufey ekki tekið undir það, því hún tekur þátt í vel flestu félagsstarfi Kvennaskólans. Auk þess að undirbúa titilvörnina í Gettu betur af krafti syngur Laufey með kórnum, leikur í nemendaleikritinu og situr þriðja árið í röð í stjórn leikfélagsins. Í fyrra gerði hún sér svo lítið fyrir og tók líka þátt í MorfÍs fyrir hönd skólans.

„Ég reyni svo líka að mæta á eins marga viðburði og ég get. Félagslífið okkar er ótrúlega öflugt og það er miklu skemmtilegra að taka þátt en sitja heima. Ég hef tekið þátt í öllu sem ég hef getað frá því að ég byrjaði í skólanum,“ segir Laufey sem nú er á lokaári sínu.

Hún segist mjög ánægð með hlutskipti sitt sem flesta daga felur í sér hlaup á milli tíma, æfinga og funda, en viðurkennir þó að einstaka sinnum þætti henni ágætt að geta hent sér í sófann og slakað á. Foreldrar hennar fá ekki að sjá mikið af henni, en Laufey segir að svo heppilega vilji til að mamma hennar kenni í skólanum, og fái þess vegna að sjá hana stöku sinnum á göngunum.

Spurð hvort eitthvað eitt eigi hug hennar frekar en annað játar hún því. „Leiklistin, alveg hiklaust. Mig langar að reyna fyrir mér í henni eftir útskrift og er núna að búa mig undir inntökuprófið í Listaháskólann í janúar. Ég ætla allavega að slá til og reyna við það og sjá svo bara hvað gerist.“

Sigur Laufeyjar í Gettu betur vakti mikla athygli, enda hefur lengi verið vilji til að hrekja strákasports-braginn af keppninni. Laufey segist þó ekki geta svarað því hvort sigurinn hafi haft áhrif á þátttöku stelpna í forkeppnum í framhaldsskólum landsins. „Í Kvennaskólanum eru allavega rosalega öflugar stelpur og flottar alltaf. Þær geta alveg ýmislegt – eins og til dæmis svarað spurningum!“ bergthora@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.