Innlent

Íslenskir flugumferðarstjórar stýra flugumferð í Bagdad

Flugumferðarstjórar með reynslu af úthafsflugstjórn eru eftirsóttir í Írak um þessar mundir.
Fréttablaðið/Heiða
Flugumferðarstjórar með reynslu af úthafsflugstjórn eru eftirsóttir í Írak um þessar mundir. Fréttablaðið/Heiða

Tveir íslenskir flugumferðarstjórar hafa flutt búferlum til Bagdad og stýra nú flugumferð yfir Írak. Tveir til viðbótar eru á leiðinni til Írak og fleiri eru að skoða málið, segir Ottó Garðar Eiríksson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

„Meginástæðan fyrir því að ég flutti voru launin sem boðið er upp á," segir Hörður Arilíusarson, sem er kominn til starfa í Bagdad.

„Í öðru lagi má segja að það sé ákveðin ævintýraþrá. Maður fær mikið út úr því að taka þátt í svona uppbyggingarstarfi."

Nú er verið að afhenda loftrýmið yfir landinu írösku flugmálastjórninni, en loftrýmið hafði verið lokað fyrir yfirflugi þar til nýverið. Aðspurður segist Hörður ekki óttast um öryggi sitt í Írak. Hann sé eins og aðrir starfsmenn á lokuðu svæði við Alþjóðaflugvöllinn í Bagdad, og öryggisgæslan sé góð.

Hörður segist hafa ráðið sig til eins árs, en vel komi til greina að vera lengur. Á þremur til fjórum árum geti hann haft jafn miklar tekjur í Bagdad og hann gæti haft á Íslandi á þeim þrettán árum sem hann eigi eftir í eftirlaunin.

Aðeins er verið að leita eftir flugumferðarstjórum með reynslu af úthafsflugstjórn enn sem komið er.- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×