Innlent

Skýringar fást ekki á fjarveru Hæstaréttar

Við þingsetningu Hæstaréttardómarar hafa verið við þingsetningu svo lengi sem menn muna. Svo var ekki í ár. Fréttablaðið/daníel
Við þingsetningu Hæstaréttardómarar hafa verið við þingsetningu svo lengi sem menn muna. Svo var ekki í ár. Fréttablaðið/daníel
„Það eru engar skýringar á þessu,“ segir Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, spurður hvers vegna enginn af dómurum réttarins hafi verið viðstaddur þingsetningu á laugardag. Slíkt hefur ekki áður gerst frá stofnun Hæstaréttar.

Spurður hvað hann eigi við með þessum orðum svarar Þorsteinn: „Ég á við að það geti verið mismunandi skýringar hjá hverjum manni.“

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, vék að fjarveru dómaranna í pistli sem hann skrifaði á heimasíðu sína á laugardag og spurði hvert við værum komin, meðal annars þegar dómarar Hæstaréttar mættu ekki til þings í fyrsta sinn frá stofnun réttarins.

Þykir Þorsteini það ekki ótrúleg tilviljun að allir tólf dómarar Hæstaréttar skuli forfallast á nákvæmlega sama tíma? „Ég get ekki svarað því. Það verða engar yfirlýsingar gefnar um þetta mál,“ segir hann.

En ber að skilja hann svo að það hafi ekki verið sameiginleg ákvörðun dómaranna að sniðganga þingsetninguna? „Ég hef ekki hugmynd um það,“ segir skrifstofustjórinn.

Fréttablaðið falaðist í kjölfarið eftir viðtali um málið við Ingibjörgu Benediktsdóttir, forseta Hæstaréttar. Hún kvaðst ekki tilbúin að veita viðtal. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×