Skoðun

Um fundarstjórn forseta

Ásta R. Jóhannesdóttir skrifar
Fréttir af fundarstjórn forseta Alþingis hafa verið nokkrar að undanförnu og hefur þar gætt misskilnings um eðli þess máls. Er það ekki að furða þegar ljósvakamiðlar klippa jafnvel saman mismunandi dagskrárliði og flytja sem einn.

Um umræður á Alþingi gilda þingsköp, sem eru lög frá Alþingi. Þeim lögum verða allir þingmenn að hlíta. Nauðsynlegt er að þau séu virt svo umræður fari ekki úr böndum.

Einn liða í dagskrá Alþingis er „fundarstjórn forseta“. Þar er þingmönnum heimilt að fjalla um stjórn forseta á þingfundi, svo og dagskrá, fundartíma og önnur formsatriði er lúta að störfum fundarins. Þetta er umræða um formsatriði en ekki pólitísk umræða.

Borið hefur á því að þingmenn hafi reynt að framlengja efnislega umræðu sem hefur farið fram undir liðnum „störf þingsins“ eða „óundirbúnar fyrirspurnir“ eftir að þeim liðum er formlega lokið, með því að biðja um orðið um „fundarstjórn forseta“. Það er óheimilt. Stöðvar þá forseti ræðu þingmannsins. Við það ber þingmanni samkvæmt þingsköpum að gera hlé á máli sínu og hlýða á hvaða erindi forseti á við hann eða ljúka strax máli sínu. Vald forseta í þessum efnum er ótvírætt enda segir í þingsköpum: „Skylt er þingmanni að lúta valdi forseta í hvívetna.“ Fari þingmaður ekki að ósk forseta er forseta nauðugur einn kostur að slá áfram í bjölluna, svo hvimleitt sem það er, og gera hlé á fundi láti þingmaður ekki segjast.

Annað gildir um framkvæmd ákvæðisins um „fundarstjórn forseta“, þegar umræður hafa verið um þingmál og verulegt ósamkomulag hefur verið um málið og meðferð þess. Þegar svo háttar hafa forsetar ekki verið eins harðir á að þingmenn haldi sig einvörðungu við formsatriði. Hafa þingmenn því getað vikið að efnisatriðum málsins samhliða umræðu um þau formsatriði í fundarstjórn sem þeir hafa athugasemdir við.




Skoðun

Sjá meira


×