Innlent

Almenningur virðist enn afhuga stjórnmálaflokkum

Hvað má lesa úr niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins á fylgi stjórnmálaflokka á landsvísu?

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með meiri stuðning en stjórnarflokkarnir samanlagt samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins. Fylgi Vinstri grænna hrynur milli kannana, og verulega dregur úr stuðningi við Hreyfinguna.

Þróun á fylgi flokkanna er ekki það eina sem lesa má úr könnuninni. Aðeins um 54 prósent þeirra sem tóku þátt í könnuninni vildi gefa upp stuðning við ákveðinn stjórnmálaflokk. Það er skýr vísbending um að almenningur virðist enn afhuga hefðbundnu stjórnmálaflokkunum eins og aðrar kannanir hafa bent til. Jarðvegurinn virðist því enn frjór fyrir ný stjórnmálaöfl.

Þátttakan var enn verri í könnun sem gerð var í september á síðasta ári, þegar hún var aðeins um 51 prósent. Í fyrri könnunum sem framkvæmdar voru á sambærilegan hátt hafa ríflega sex af tíu gefið upp hvað þeir myndu kjósa.

Þegar horft er til þeirra sem taka afstöðu til stjórnmálaflokka mælist stuðningurinn við Sjálfstæðis­flokkinn langsamlega mestur. Alls segjast 43,4 prósent myndu kjósa flokkinn yrði gengið til kosninga nú. Það er aukning um 7,8 prósentustig frá könnun Fréttablaðsins í september síðastliðnum, og myndi skila 28 þingsætum.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 23,7 prósent atkvæða í kosningunum í apríl 2009 og er með sextán þingmenn í dag.

Stuðningur við Samfylkinguna virðist heldur á uppleið samkvæmt könnun Fréttablaðsins. Nú segjast 25,8 prósent þeirra sem afstöðu tóku myndu kjósa flokkinn, en 23,2 prósent studdu flokkinn í september síðastliðnum. Samfylkingin fengi sautján þingmenn yrðu niðurstöður kosninga í takt við könnun Fréttablaðsins.

Samfylkingin naut stuðnings 29,8 prósenta kjósenda í síðustu kosningum og er í dag með 20 þingmenn, og er því enn talsvert undir kjörfylgi.

Stuðningur við VG hrynur

Stuðningur við Vinstri græn hrynur milli kannana, og er talsvert undir kjörfylgi. Nú segjast 16,5 prósent myndu kjósa flokkinn, en 25,6 prósent studdu Vinstri græn í síðustu könnun. Þessi stuðningur myndi skila flokknum ellefu þingmönnum í kosningum.

Vinstri græn fengu 21,7 prósent atkvæða í kosningunum í apríl 2009 og eru í dag með fimmtán þingmenn.

Stuðningur við Framsóknarflokkinn virðist á uppleið. Nú segjast 11,8 prósent styðja flokkinn, en í september studdu hann 7,3 prósent. Flokkurinn fengi sjö þingmenn yrði þetta niðurstaða kosninga, en er með níu í dag.

Hreyfingin tapar talsverðu fylgi og myndi ekki ná manni á þing yrðu niðurstöður kosninga í takt við könnun Fréttablaðsins. Aðeins 2,1 prósent sagðist myndu kjósa Hreyfinguna nú, en 5,6 prósent studdu hana í september. Hreyfingin er með þrjá þingmenn í dag. brjann@frettabladid.is








Tengdar fréttir

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur meiri stuðnings en stjórnin

Fleiri styðja Sjálfstæðisflokkinn en Samfylkinguna og Vinstri græn samanlagt samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins. Yrðu niðurstöður kosninga í takt við könnunina gætu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndað meirihlutastjórn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×